Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - Júní

Pistill framkvæmdastjóra - Júní

Júnímánuður hefur verið óvenju annasamur í ár hjá SSNE og auðvitað fjölmargar jákvæðar fréttir af atvinnu- og menningarlífi landshlutans sem er ánægjulegt.

Við héldum fund í Samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra um miðjan mánuðinn, en um þessar mundir erum við að vinna nýja sóknaráætlun fyrir landshlutann. Á fundinum var farið yfir verklag í tengslum við vinnuna framundan, málaflokkar áætlunarinnar kynntir og sömuleiðis drög að framtíðarsýn landshlutans. Í haust munum við halda vinnustofur sem verða opnar öllum í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Þær verða auðvitað vel auglýstar og hvetjum við eindregið til þátttöku sem flestra, en þar gefst tækifæri til að hafa áhrif á starfsemi SSNE og verkefni næstu 5 ára í landshlutanum.

Íbúakönnun landshlutanna 2023 kom út nú í júní og kom þar fjölmargt áhugavert fram. Þar var sérstaklega ánægjulegt hversu ánægðir íbúar á Norðurlandi eystra virðast heilt yfir vera. Þegar afstaða íbúa til búsetuskilyrða er tekin saman og svæðunum gefin vigtuð einkunn, skipa Eyfirðingar efsta sætið með 7,2 stig af 10 mögulegum. Þá var Akureyri í þriðja sætinu með 6,8 og svo Þingeyjarsýsla í 9. Sæti með 6,0 en þau hækkuðu um 0,7 stig í einkunn frá síðustu könnun sem kom út 2020. Þá var einnig spurt hvort það væri almennt séð gott eða slæmt að búa þar sem þau bjuggu. Þar kom Norðurland eystra einnig sérstaklega vel út, en í fyrsta sæti var Akureyri þar sem 96% íbúa töldu frekar eða mjög gott að búa þar, í öðru sæti Þingeyjarsýsla með 95% og í þriðja sæti Eyjafjörður með ríflega 93%. Með öðrum orðum – það er gott að búa á Norðurlandi eystra en við viljum gjarnan leggja okkar að mörkum til þess að auka þá gleði enn frekar. Í því samhengi vonumst við auðvitað til mikils af nýrri Sóknaráætlun landshlutans sem verður kláruð nú í haust og tekur gildi um áramót.

Það hefur auðvitað fjölmargt fleira átt sér stað í mánuðinum og hvet ég lesendur til að fylgjast alltaf með heimasíðunni okkar www.ssne.is, en þar er má alltaf sjá það sem efst er á baugi hverju sinni hjá okkur. Mánuðinum lauk með vel heppnuðu málþingi á Húsavík sem haldið var af Castor Miðlun. Málþingið fjallaði um kvikmynda- og dagskrárgerð á Norðurlandi eystra en samhliða opnaði Castor Miðlun nýtt myndver í húsnæði sínu á Húsavík sem er eina sjónvarpsmyndverið utan höfuðborgarsvæðisins. Við hjá SSNE óskum Húsvíkingum og auðvitað landshlutanum öllum til hamingju með þetta metnaðarfulla verkefni og hlökkum til að fylgjast með framhaldinu.

Nú þegar júnímánuði er að ljúka fer að hægjast nokkuð á starfseminni hjá okkur en starfsfólk okkar fer flest í frí í júlímánuði og verða skrifstofur okkar lokaðar frá 22. júlí til og með 5. ágúst. Fréttabréfið okkar fer einnig í sumarfrí í júlí og kemur því það næsta ekki út fyrr en í lok ágúst.

Ég vona að þið eigið öll yndislegt sumar framundan!

--

Bestu kveðjur,
Albertína Friðbjörg.

Getum við bætt síðuna?