Pistill framkvæmdastjóra - janúar
Pistill framkvæmdastjóra - janúar
Janúar er bæði fyrsti og lengsti mánuður ársins – eða þannig líður okkur allavega oft. Dagarnir virðast dragast á langinn, jólaaugnablikin fjarlægjast og veturinn heldur fast í klakann. En á sama tíma er þetta mánuðurinn þar sem við stillum áttavitann, horfum fram á veginn og leggjum grunninn að nýju og spennandi ári. Sólin er líka farin að skína örlítið lengur með hverjum degi sem líður, og gefur bæði birtu og kraft í verkefnin framundan.
Starfsemi SSNE hefur farið af stað af fullum krafti á nýju ári. Við hófum árið á að halda aukaþing SSNE þar sem þingfulltrúar sem skipaðir eru af sveitarfélögunum á Norðurlandi eystra komu saman og samþykktu nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025-2029. Þessi nýja Sóknaráætlun verður leiðarljósið í starfsemi SSNE næstu 5 árin en hún setur okkur stefnu á ýmsum sviðum og veitir tækifæri til að styðja við fjölbreytt verkefni sem efla samfélagið, menningu, nýsköpun og atvinnulíf á svæðinu. Þessa dagana erum við svo á fullu að móta áhersluverkefni þessa árs, en dæmi um áhersluverkefni síðustu ára má kynna sér á heimasíðunni okkar.
Í síðustu viku hófum við svo mánaðarlega fundarröð undir heitinu Föstudagsfundir SSNE þar sem ætlunin er að bjóða til samtals um tækifæri og áskoranir ólíkra atvinnugreina á svæðinu. Fyrsti fundurinn fjallaði um landbúnað og tækni og var sérstaklega rætt um um nýtingu gervigreindar í landbúnaði. Fundurinn var afar vel sóttur og vonum við að það sama verði upp á teningnum á næsta fundi sem haldinn verður eftir miðjan febrúar. Þá hófust einnig í janúar Fræðsluerindi fyrir frumkvöðla, sem landshlutasamtökin standa að í sameiningu, og verða þeir fundir mánaðarlega fram á sumar. Næsti fundur verður haldinn á Teams 4. febrúar næstkomandi og verður þar fjallað um umsóknarskrif.
Að lokum er ástæða til að minna á að á heimasíðu SSNE má alltaf sjá yfirlit yfir þá viðburði sem eru framundan hjá okkur hverju sinni. Þar eru einnig aðgengilegar reglulegar fréttir af starfinu og upplýsingar um helstu verkefni okkar. Í viðburðadagatalinu okkar eru líka umsóknarfrestir flestra samkeppnissjóða og tenglar á heimasíður sjóðanna og því heilmikið af gagnlegum upplýsingum sem hægt er að nálgast í gegnum heimasíðuna okkar.
Annars er það bara töluvert styttri og bjartari mánuður framundan hjá okkur öllum og minnum við á að starfsfólk okkar er ávallt reiðubúið til skrafs og ráðagerða um hugmyndir og verkefni í landshlutanum öllum.