Pistill framkvæmdastjóra - febrúar
Pistill framkvæmdastjóra - febrúar
Þrátt fyrir að vera í styttri kantinum hefur febrúar verið viðburðaríkur mánuður hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og fjölmörg verkefni sem eru á flugi hjá okkur þessa dagana.
Um miðjan mánuðinn fór fram Fyrirtækjaþing Akureyrar í Menningarhúsinu Hofi. Þingið var samstarfsverkefni Akureyrarbæjar og SSNE en þar komu saman stjórnendur um 50 fyrirtækja og stofnana til að ræða framtíð atvinnulífsins á svæðinu, helstu áskoranir og tækifæri. Almenn ánægja var með samtalið en niðurstöður þingsins munu nýtast við endurskoðun atvinnukafla aðalskipulags Akureyrar og samkeppnisgreiningu fyrir bæinn. Sambærileg vinna er nú í gangi með Langanesbyggð og höfum við verið að bjóða öðrum sveitarfélögum aðkomu að sambærilegri vinnu í þeirra sveitarfélögum, en samtal við atvinnulífið í landshlutanum er alltaf í forgangi hjá okkur.
Við hjá SSNE höfum fjölbreytt verkfæri til að styðja við atvinnulífið og þá ekki síst frumkvöðla á svæðinu, en við höfum á síðustu vikum og mánuðum einnig verið að auka samstarfið við hin landshlutasamtökin þegar kemur að stuðningi við frumkvöðla og atvinnulíf. Dæmi um afurð af þeirri samvinnu er fyrirlestraröðin „Forvitnir frumkvöðlar“ sem hefur vakið nokkra athygli. Þann 4. febrúar hélt Þórunn Jónsdóttir fyrirlestur um gerð styrkumsókna, þar sem hún deildi áralangri reynslu sinni af umsóknagerð. Næsti fyrirlestur verður 4. mars og mun Atli Arnarson fjalla um hvernig nýta má gervigreind við gerð styrkumsókna. Við hvetjum öll áhugasöm til að taka þátt og nýta sér þessa fræðslu. Þá höfum við einnig verið í samtali hér innan landshlutans við aðila sem styðja við frumkvöðla og nýsköpun á einhvern hátt og höfum við trú á því að úr því samtali geti sprottið fjölmörg áhugaverð verkefni sem vert verður að fylgjast með.
Það hefur einnig fjölmargt verið í gangi á sviði umhverfismála í mánuðinum. Þannig er RECET verkefnið (Rural Europe for the Clean Energy Transition) nú í fullum gangi og fyrir áhugasöm vekjum við athygli á að þau hafa nú gefið út sitt fyrsta fréttabréf og er það aðgengilegt á heimasíðu SSNE. Verkefnið er samstarf fimm landa og fjölda sveitarfélaga í Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Markmið RECET er að efla getu sveitarfélaga og atvinnulífs til að takast á við orkuskipti og þróa orkuskiptaáætlanir fyrir Norðurland eystra og Vestfirði. Í tengslum við verkefnið verður stór ráðstefna á Akureyri í maí þar sem verður tækifæri fyrir áhugasöm að fá innsýn í verkefnið.
Umhverfismálin eru auðvitað eitt af stóru viðfangsefnum samtímans og ekki síst sveitarfélaganna. Oft gerum við okkur samt ekki alveg grein fyrir öllum þessum endalausu hugtökum og verkefnum sem einkum loftslagsmálin fela í sér. Til að koma til móts við það hefur LOFTUM skólinn, rafrænn skóli í loftslags- og umhverfismálum, verið starfræktur af SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga með styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Skólinn býður starfsfólki sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum á Norðurlandi eystra upp á fjölbreytta fræðslu í þessum málaflokkum, án endurgjalds. Við hvetjum öll sem hafa áhuga á að kynna sér fræðsluna að kynna sér hana inn á heimasíðunni okkar eða heimasíðum SÍMEY og Þekkingarnets Þingeyinga.
Að lokum viljum við nýta tækifærið og vekja sérstaka athygli á rafrænum föstudagsfundi sem SSNE stendur fyrir í þetta skiptið í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands en þar fjallað annarsvegar um gjaldtöku og hagræn áhrif og hins vegar fáum við innsýn í fjögur fjárfestingaverkefni í ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra; Hilton á Akureyri, Skógarböðin, Fjöruböðin og uppbyggingu á Hauganesi og uppbyggingu við Jarðböðin við Mývatn. Fundurinn hefst kl. 11:30 og er opin öllum áhugasömum.
Við hjá SSNE tökum annars spennt á móti vorinu sem kemur vonandi til okkar í mars og kveðjum febrúar með stolti. Eins og alltaf hlakkar okkur til áframhaldandi samstarfs við ykkur öll í að efla Norðurland eystra sem eftirsótt svæði til búsetu og atvinnu. Það er alltaf heitt á könnunni á skrifstofum okkar sem eru víðsvegar um landshlutann og við erum alltaf reiðubúin til skrafs og ráðagerða.