Pistill framkvæmdastjóra - febrúar
Pistill framkvæmdastjóra - febrúar
Febrúarmánuður var sannarlega fjölbreyttur mánuður í starfsemi SSNE og fjölmargir áhugaverðir viðburðir sem einkenndu mánuðinn. Þar verð ég fyrst að nefna málþingið Út um borg og bý sem haldið var í Hofi á Akureyri í byrjun mánaðarins, en þar var fjallað um tækifærin sem felast í samstarfi sveitarfélaga, um hvað það er sem skapar aðdráttarafl sveitarfélaga og að lokum var fjallað um þá nýbirt drög að borgarstefnu fyrir Ísland, sem nú er aðgengileg á Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er fjallað annars vegar um höfuðborgina Reykjavík og hins vegar um svæðisborgina Akureyri og áhrifasvæði þeirra. Málþingið var vel sótt bæði á stað og í streymi en fyrirlestrarnir eru allir aðgengilegir á heimasíðu SSNE.
Annað áhugavert málþing var haldið í samstarfi við EIM og Íslenska Nýorku þann 21. febrúar síðastliðinn, en efni málþingsins var staða mála í orkuskipum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipi í þungaflutningum og við hafnir. Málþingið var einnig afar vel sótt og erindin gott upphaf að þeirri vinnu sem nú er hafin með RECET á Norðurlandi eystra. Hægt er að horfa á málþingið á heimasíðu SSNE, en allar nánari upplýsingar um RECET verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins.
Það er fjölmargt fleira sem vert er að nefna frá verkefnum febrúarmánaðar, en til að mynda fengum við þær gleðilegu fréttir að tvö verkefni hefðu fengið úthlutun úr byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1), alls 27,5 milljónir króna. Þetta var annars vegar verkefnið Samfélagsmiðstöð á Bakkafirði og hins vegar Lýsistankarnir á Raufarhöfn. Hvoru tveggja verkefni sem við hjá SSNE höfum trú á að muni skipta miklu máli fyrir samfélögin á Bakkafirði og Raufarhöfn.
Eitt af þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna að nú í febrúarmánuði er nú að fara af stað í þessum skrifuðu orðum, en það er verkefni sem hefur heitið Samráðsvettvangur atvinnulífs á Norðurlandi eystra. Tilgangur vettvangsins er að koma á virku samtali milli atvinnulífs á svæðinu og SSNE, en einnig vonumst við til að fulltrúar atvinnulífsins sjái þarna tækifæri til að skapa vettvang til samráðs um ýmis sameiginleg hagsmunamál atvinnulífs á Norðurlandi eystra.
Fundirnir verða haldnir í fjarfundi til að jafna aðgengi og er stefnt að fyrsta fundi í byrjun apríl. Ég vil nýta þetta tækifæri og hvetja öll sem stýra fyrirtækjum á svæðinu, sem og aðra sem hafa áhuga á að styðja við hagsmuni atvinnulífs á svæðinu til að skrá sig til þátttöku og taka þátt í umræðu um hagsmuni Norðurlands eystra í heild.
Það er annars ýmislegt spennandi framundan. Þar ber auðvitað fyrst að nefna Fjárfestahátíð á Siglufirði sem verður haldin 20. mars næstkomandi. Þá styttist hratt í ársþing SSNE en það verður haldið á Sel-hótel í Þingeyjarsveit 18.-19. apríl næstkomandi.
En látum staðar numið hér á þessum kalda en fallega hlaupársdegi. Minni á að lokum að við erum alltaf tilbúin til skrafs og ráðagerða og allar upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast okkur má finna á heimasíðunni okkar.
Njótið birtunnar framundan í mars!