Pistill framkvæmdastjóra - Apríl 2024
Pistill framkvæmdastjóra - Apríl 2024
Og allt í einu er kominn maí og farfuglarnir allir komnir og farnir að undirbúa hreiðurgerð. Bændurnir farnir að bíða spenntir eftir að frosti fari úr jörðu og fyrstu lömb vorsins farin að láta sjá sig.
Aprílmánuður var stór mánuður hjá SSNE. Að öðrum viðburðum ólöstuðum þá stóð sannarlega upp úr ársþingið okkar sem í þetta sinn var haldið í félagsheimilinu Skjólbrekku í Þingeyjarsveit. Þingið var afar vel sótt, bæði af þingfulltrúum og öðrum gestum og var afar ánægjulegt hversu ánægðir gestirnir virtust vera með hvernig til tókst. Á þinginu var fjallað um fjölmargt en á fyrri deginum var haldin vinnustofa þar sem vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra var hrint af stað. Árið í ár hjá SSNE einkennist einmitt töluvert af þeirri vinnu, en fyrirhugað er að halda opnar vinnustofur um allan landshlutann í lok sumars og vonumst við auðvitað til þess að sem flest sjái sér fært að taka þátt í þeim. Í Sóknaráætluninni erum við að setja okkur framtíðarsýn fyrir landshlutann í heild, og um leið SSNE, auk þess sem mótuð verða markmið og verkefni sem munu vonandi hjálpa okkur að láta þá framtíðarsýn sem þar birtist verða að raunveruleika. En meira um það síðar.
Á ársþinginu var einnig fjallað um stöðu nærþjónustu ríkisins á Norðurlandi eystra. Þar komu fulltrúar Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og kynntu stöðu þjónustunnar sem þau veita í landshlutanum. Það var fjölmargt athyglisvert sem þar kom fram og vek ég athygli á því að glærurnar úr kynningunum eru aðgengilegar á heimasíðunni okkar, www.ssne.is. Í kjölfar kynninganna samþykktu þingfulltrúar ályktun um stöðu nærþjónustu íbúa landshlutans:
„Ársþing SSNE, haldið í Þingeyjarsveit, 18.-19. apríl 2024 telur óásættanlegt að ekki sé tryggð grunnfjármögnun nærþjónustu íbúa landshlutans, eins og löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Það er mikilvægt fyrir jafn fjölmennan landshluta eins og Norðurland eystra að hafa aðgang að öflugri þjónustu eins og löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Mikill hugur er meðal sveitarstjórnarfólks á Norðurlandi eystra til áframhaldandi uppbyggingar landshlutans og er mikilvægt að nærþjónusta ríkisins eflist samhliða þeirri uppbyggingu. Ársþings SSNE skorar á stjórnvöld að bæta úr og tryggja þessa fjármögnun í fjármálaáætlun 20242029 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.“
Heildarályktunina og nánari útlistanir um stöðu mála má nálgast á heimasíðu SSNE.
Af innra starfi má nefna að starfsfólk SSNE átti virkilega góðan starfsdag í Hrísey þar sem rætt var um vinnustaðinn SSNE og fjölmargt fleira. Það stóð þó líklega upp úr hversu stórkostleg eyjan er og hversu vel tekið var á móti okkur þar. Það er sannarlega óhætt að mæla með degi í Hrísey, já jafnvel fjölmörgum dögum. Við þökkum kærlega fyrir okkur!
Það var auðvitað fjölmargt fleira áhugavert sem átti sér stað í aprílmánuði í starfsemi SSNE sem vert væri að nefna. Þar stendur þó líklega upp úr útkoma skýrslu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði um málefni samfélagsins á Langanesi. Starfshópurinn var skipaður þeim Njáli Trausta Friðbertssyni, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Í skýrslunni kom m.a. fram það skýra forgangsmál að auka flutningsgetu á raforku til Þórshafnar og nágrennis. Þá var einnig talið mikilvægt að unnið verði áfram með tillögur um friðlýsingarkosti á utanverðu Langanesi og að stofnaður verði þjóðgarður í sátt við íbúa og hagsmunaaðila. Fleiri tillögur komu fram í skýrslunni en allt um skýrsluna og þær aðgerðir sem lagðar voru til má finna á heimasíðunni okkar.
Það er sumar í lofti og fjölmörg verkefni framundan – eins og alltaf þá er starfsfólk okkar staðsett víðast hvar um landshlutann og gleðst yfir því að taka á móti einstaklingum með góðar hugmyndir og skemmtileg verkefni. Verið velkomin!