Persónuvernd auglýsir störf á Húsavík - í takt við aðgerð B7 í byggðaáætlun
Persónuvernd auglýsir störf á Húsavík - í takt við aðgerð B7 í byggðaáætlun
Persónuvernd auglýsir tvö störf á Húsavík. Í Byggðaáætlun er aðgerð sem lýtur að því að 10% starfa stofnanna á vegum ríkisins verði auglýst án staðsetningar. Persónuvernd er að taka eitt skref í átt að því með því að auglýsa störf utan höfuðborgarsvæðisins.
Aðgerðin er svohljóðandi:
B.7. Störf án staðsetningar.
Verkefnismarkmið: Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.
Ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þegar slíkt starf er auglýst skal vakin athygli á að um starf án staðsetningar sé að ræða. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti/stofnun leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Fyrir árslok 2019 skal hvert ráðuneyti hafa skilgreint hvaða störf verður hægt að vinna utan ráðuneytis. Fyrir árslok 2021 skulu 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera án staðsetningar. Árangur af verkefninu verði mældur í fjölda starfa í einstökum ráðuneytum og stofnunum sem eru unnin utan veggja þeirra borið saman við 1. janúar 2018.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Framkvæmdaraðili: Ráðuneyti og stofnanir.
Dæmi um samstarfsaðila: Byggðastofnun, sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni.
Tímabil: 2018–2024.
Tillaga að fjármögnun: Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
SSNE fagnar því að stofnanir séu að átta sig betur á því að mörg störf sem þau auglýsa þarf ekki að auglýsa staðbundið og vonandi er þetta það sem koma skal. Hér má sjá auglýsinguna hjá Persónuvernd.