Orkuskipti í Grímsey
Orkuskipti í Grímsey
Endurnýjanleg orka ryður sér til rúms í Grímsey, en á næstu mánuðum er stefnt að því að stíga stór skref í orkuskiptum í Grímsey.
Orkuframleiðsla og -notkun í Grímsey er í dag byggð á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti, en olía er bæði notuð til raforkuframleiðslu og til húshitunar og er heildarolíunotkun um 400 þúsund lítrar á ári. Losun vegna orkunotkunar í Grímsey er því um það bil 1.000 tonn CO₂ á ári að frátaldri eldsneytisnotkun farartækja og fiskibáta.
Orkuskipti í Grímsey er því gríðarlega þarft verkefni og hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að ná markmiðum stjórnvalda og bæjarins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í orkustefnu Íslands til ársins 2050 er stefnt að því að landið verði óháð jarðefnaeldsneyti.
Stefnt er að uppsetningu á tveimur vindmyllum sem samtals framleiða um 30.000 kWst á ári. Einnig eru áform um að setja upp sólarorkuver við Múla sem gæti framleitt allt að 10.000 kWst á ári.
Ýmislegt hefur nú þegar verið gert í Grímsey til að draga úr orkunotkun og þar með brennslu jarðefnaeldsneytis. Til að mynda aðgerðir sem draga úr upphitunarþörf heimila líkt og að bæta einangrun í þökum og gluggum og einnig LED-væðing sem hefur skilað miklum orkusparnaði. Stefnt er að áframhaldandi LED væðingu, auk þess að að þróa lausnir við uppsetningu á sólarsellum á og við hús heimamanna.
Næstu skref í orkuskiptum
Þessar fyrstu aðgerðir eiga að minnka olíunotkun um 20 þúsund lítra og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 tonn á ári. Ef reynslan af þessum nýju kerfum verður góð er markmiðið að auka hlut grænna orkugjafa enn frekar í náinni framtíð.
Samið hefur verið við skoska framleiðendur sem framleiða smáar en mjög sterkar vindmyllur og er það Fallorka á Akureyri sem annast verkefnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði.
Unnið er að undirbúningi og ef allt gengur samkvæmt áætlun gætu framkvæmdir í Grímsey hafist í byrjun sumars.
Frétt frá N4.is