Opnað á umsóknir um styrki til að efla hringrásarhagkerfið
Opnað á umsóknir um styrki til að efla hringrásarhagkerfið
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum lögaðila, þ.m.t. sveitarfélaga, um styrki til verkefna sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi.
Markmið með styrkveitingunum er að:
a) Efla úrgangsforvarnir á Íslandi, s.s. til að draga úr myndun úrgangs.
b) Bæta flokkun úrgangs hér á landi.
c) Efla tækifæri til endurvinnslu úrgangs sem næst upprunastað.
d) Stuðla að aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu úrgangs sem fellur til hér á landi.
e) Efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs eða auðveldar flokkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs.
Gert er ráð fyrir að styrkjum verði veitt til afmarkaðra verkefna og verða þeir almennt veittir til eins árs í senn. Reynist verktíminn vera lengri er þó heimilt að veita árlegan styrk til allt að þriggja ára með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum.
Heildarstyrkupphæð vegna verkefna sem falla undir stafliði (a) til (d) hér að framan er 200 milljónir kr. og vegna verkefna sem falla undir staflið (e) 30 milljónir kr. Hver einstakur styrkur mun almennt ekki nema hærri fjárhæð en 10% af heildarfjárheimild ársins í hvoru tilviki fyrir sig.
Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.
Hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli frá Þjóðskrá. Umsækjendur skrá sig inn og finna þar viðeigandi eyðublað undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2021.
Nánari upplýsingar um styrkveitingar verða birtar á vef ráðuneytisins.
Reglur um styrkveitingar til eflingar hringrásarhagkerfis
Nánari upplýsingar veitir Hafsteinn Pálsson, s. 545-8600, netfang: hafsteinn.palsson@uar.is