Opinn fundur um mótun sviðslistastefnu
Opinn fundur um mótun sviðslistastefnu
Vinna er hafin við mótun opinberrar stefnu í sviðslistum á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Opinber stefna í sviðslistum hefur ekki verið unnin áður sem heildrænt fyrirbæri og er verkefninu skipt í nokkra áfanga. Markmiðið er að að meta stöðu og möguleika sviðslistafólks og stofnana í sviðslistum, skapa skýra framtíðarsýn og móta stefnu hins opinbera í sviðslistum til skemmri og lengri tíma.
Þessa dagana hefur starfshópur um sviðslistastefnu haldið fjölda rýnifunda með ólíkum hópum fagfólks í sviðslistum og tengdum aðilum. Sem dæmi um hópa má nefna fulltrúa frá fag- og stéttarfélögum, stofnunum í sviðslistum, sjálfstæða geiranum, danssamfélaginu, starfsfólki í tækni og framleiðslu, listahátíðum, Listaháskóla Íslands og menningarfulltrúum landshlutasamtaka.
Orri Huginn Ágústsson leiðir vinnu starfshóps sem er þannig skipaður að SAVÍST-Samtök atvinnuveitenda í sviðslistum tilnefna tvo fulltrúa, SAFAS-Samráðsvettvangur fagfélaga sviðslistafólks innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna einnig tvo, SL-Bandalag sjálfstæðs sviðslistafólks og leikhúsa tvo og Sviðslistamiðstöð tvo.
Hér má finna upplýsingasíðu starfshóps um stefnumótun í sviðslistum. Hægt er að senda erindi til hópsins með tölvupósti á netfangið stage@stage.is