Ódýrara flug til Reykjavíkur með viðkomu í London?
Ódýrara flug til Reykjavíkur með viðkomu í London?
Stórt skref var stigið í flugsögu Norðurlands nýverið þegar breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf áætlunarflug til Akureyrar frá London Gatwick. Þar með var einnig stigið skref í átt að yfirlýstu markmiði íslenskra stjórnvalda að opna fleiri gáttir inn í landið. Markmiði sem hefur verið talað um lengi – að minnsta kosti á hátíðardögum. Með annarri gátt er stutt við aukna dreifingu ferðafólks um landið, sem minnkar vonandi álagið á ofsetnum ferðamannastöðum á suðvesturhorni landsins.
Í Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024 var eitt af megin markmiðum atvinnu- og nýsköpunar að koma á reglubundnu millilandaflugi til Norðurlands eystra. Flug easyJet færir okkur sannarlega nær því markmiði. Þetta nýja áætlunarflug felur í sér heilmikil tækifæri til uppbyggingar og vöruþróunar ferðaþjónustuaðila á norðan- og austanverðu landinu, og þar með tækifæri til efnahagslegs vaxtar á svæðinu.
Þetta nýja flug nýtist þó ekki aðeins hérna heima fyrir. Frá London Gatwick flugvelli er hægt að fá tengiflug nánast hvert sem er og opnar flugið því einnig aðgengi fyrir íbúa til ferðalaga um allan heim á einfaldan hátt fyrir lítinn kostnað.
Það sem ég hef talið upp hér að ofan kemur líklega fáum á óvart.
Það sem kemur þó kannski á óvart er að með þessu flugi opnast líka tækifæri fyrir til að fljúga á ódýrari máta milli Akureyrar og Reykjavíkur og öfugt. Þannig var til að mynda mögulegt að bóka flug nú á helginni frá Akureyri til Reykjavíkur (aðra leið) á 18.400 krónur með Icelandair, en á 12.221 krónu með easyJet. Vissulega með viðkomu í London, en það getur nú bara gert ferðina skemmtilegri.
Innanlandsflugið er okkur sem búum fjær höfuðborginni afar dýrmætt enda er flugið í raun hluti af almenningssamgöngukerfinu til höfuðborgarinnar. En hvernig virka almenningssamgöngur þegar flugið er svo dýrt að við getum ekki nýtt okkur það? Loftbrúin hefur vissulega hjálpað til, en verðið hefur hækkað töluvert, en framlag Loftbrúarinnar stendur í stað.
Að öllu ofangreindu er ljóst að við ættum öll að reyna að vera dugleg að nýta flug easyJet frá Akureyri. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að auka líkurnar á að flugfélagið haldi áfram að bjóða okkur upp á ódýrari valkost. Ég ætla allavega að reyna það.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er framkvæmdastjóri SSNE
- E.S. Vinna við nýja Sóknaráætlun landshlutans fer af stað á næsta ári. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt bendum við á að það eru öllum velkomið að taka þátt í Samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en einnig verða haldnir opnir fundir á næsta ári sem auglýstir verða sérstaklega.