Fara í efni

Nýútkomin skýrsla um störf án staðsetningar

Nýútkomin skýrsla um störf án staðsetningar

Þann 7. September sl., var gefin út skýrsla á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um stöðu og framtíðarhorfur verkefnisins Störf án staðsetningar.

Störf án staðsetningar er hluti af byggðaáætlun 2018-2024 en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ráðuneytum og stofnunum þeirra verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Markmið verkefnisins er að efla byggðir landsins og að sporna við fækkun íbúa á einstökum svæðum og gera atvinnulíf fjölbreytilegra.

Greining á stöðugildum ráðuneyta og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu leiddi í ljós að í heild væri mögulegt að auglýsa um 10% starfa án staðsetningar, en það er í takt við markmið í gildandi byggðaáætlun. Alls skiluðu 100 stofnanir greiningu á stöðugildum og töldu mögulegt að auglýsa allt að 840 störf án staðsetningar. Niðurstöður einstakra stofnana eru birtar í skýrslunni en þeim er raðað eftir ráðuneytum, sem þau heyra undir.

Vefkönnun var lögð fyrir forstöðumenn ríkisstofnana til að kanna viðhorf til verkefnisins árið 2020. Af þeim sem svöruðu taldi 71% frekar eða mjög ólíklegt að 10% auglýstra starfa yrðu án staðsetningar fyrir árslok 2024. Þá töldu 27% aðspurðra mjög eða frekar líklegt að ráðið yrði í starf án staðsetningar á næstu 24 mánuðum en 63% töldu það mjög eða frekar ólíklegt. Könnunin náði til 117 ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu og var svarhlutfallið 58%.

Hvar eru ríkisstörfin?
Byggðastofnun hefur frá áramótum 2013/2014 gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins. Nýjustu skýrslu sem er frá árslok 2019 má finna hér

Í skýrslunni er fjallað um fjölda og staðsetningu stöðugilda hjá ríkinu. Í árslok 2019 voru íbúar á Íslandi 364.134 og stöðugildi ríkisins 24.979. Fleiri konur eru í þessum stöðugildum eða 15.716 á móti 9.263 körlum. Á árinu 2019 fjölgaði stöðugildum um 199 á landsvísu, eða 0,8%. Meðaltal sex ára (2014-2019) sýnir að 64,1% landsmanna búa að jafnaði á höfuðborgarsvæðinu en þar er hlutfall stöðugilda ríkisins 71,3%. Á landsbyggðinni er hlutfall íbúa 35,9% og stöðugilda ríkisins 28,7%.

 

Tillögur settar fram
Samkvæmt skýrslunni voru 1.765 störf auglýst hjá ríkinu á landsvísu árið 2020. Tölfræði um hlutfall auglýstra starfa á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar annars vegar og tölfræði um fjölda starfa sem auglýst eru án staðsetningar er hinsvegar ekki aðgengileg. Á meðal tillagna framkvæmdastjórnar er að bæta tölfræði um málefnið þannig að hún sé tiltæk og aðgengileg. Mikilvægt er að geta fengið reglulegt yfirlit tölfræði um stöðu auglýstra starfa hjá ríkinu, verkefninu til stuðnings og aðhalds.

Í skýrslunni eru einnig settar fram tillögur sem miða að því að fjölga auglýsingum ríkisstarfa án staðsetningar á næstu árum. Lagt er til að ráðuneytin fylgi því vel eftir við stofnanir að þær ráði í störf án staðsetningar, að fræðsla verði aukin og loks að tölfræði og viðmið um kostnaðarþátttöku verði gerð tiltæk og aðgengileg.

Frá því að verkefnið var sett af stað hefur ýmsum áföngum verið náð en þó er langt í land.

Greining hefur verið gerð á ríkisstörfum, þar sem 86% stofnana á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið greiningu á því hvaða störf þau telji að megi auglýsa án staðsetningar.

Þá hefur Byggðastofnun  í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga kortlagt húsnæði sem til boða standa fyrir störf án staðsetningar, en þau telja nú um 100 talsins og er yfirlit þeirra að finna á vef Byggðastofnunar.  Kortinu er ætlað að vera lifandi upplýsingabanki og birtast þar ákveðnar grunnupplýsingar um viðkomandi staði ásamt tengilið sem hafa skal samband við ef áhugi er fyrir hendi. Landsbyggðirnar eru því nú þegar vel í stakk búnar til að taka á móti þessum störfum á vegum ríkisins og stofnana þeirra.

Sömuleiðis hafa leiðbeiningar verið gefnar út og staðlaður texti birtur í atvinnuauglýsingum fyrir störf án staðsetningar og lagt til að fjármagn yrði sett í verkefnið í tillögu um endurskoðaða byggðaáætlun fyrir tímabilið 2022-2036.


Málþing SSNE og Akureyrarstofu – Fólk færir störf
SSNE í samvinnu við Akureyrarstofu stóðu fyrir rafrænu málþingi í byrjun árs undir heitinu Fólk færir störf  þar sem varpað var ljósi á ört vaxandi möguleika sem felast í störfum óháð staðsetningu auk þess sem rædd voru tækifæri og áskoranir sem felast í flutningi fólks og starfa. Vel á annað hundrað manns fylgdust með og tóku þátt á Zoom og var kraftur og bjartsýni sem einkenndi málþingið.

Flutt voru erindi og sagðar reynslusögur af opinberum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa flutt störf á milli landa og landshluta eða þekkja vel kosti fjarvinnu. Þau sem tóku til máls voru sammála um að Covid-19 faraldurinn hefði haft mikil áhrif, flýtt stafrænni þróun og opnað augu fyrir færanleika fólks og starfa. Ef margt fólk getur unnið heima án vandræða svo mánuðum skiptir ætti allt eins að vera mögulegt að velja sér annað búsetusvæði og taka vinnuna með sér.  Hér er hægt að horfa á upptöku málþingsins.

SSNE mun halda áfram samvinnu um þessi mikilvægu mál, en samkvæmt nýútkominni skýrslu er ljóst að efla þarf enn fremur starfsemi og umsvif ríkisins á atvinnumarkaði á landsbyggðunum en gríðarleg tækifæri felast í því að auka hlutfall starfa án staðsetningar og þarf viðhorfsbreytingu, vilja og samstilltar aðgerðir til að ná fram slíku markmiði til hagsbóta fyrir svæðið allt.

 Hér má lesa skýrsluna Störf án staðsetningar: Staða og framtíðarhorfur

 
Sjá einnig:
Frétt frá Stjórnarráði Íslands: Skýrsla gefin út um störf án staðsetningar
Aðgerð B.7. Störf án staðsetningar

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?