Nýtt heimilisfang skrifstofu SSNE á Húsavík
Nýtt heimilisfang skrifstofu SSNE á Húsavík
Skrifstofa SSNE hefur verið flutt um set og er nú staðsett á 2. hæð í Langaneshúsinu við Hafnarstétt 3. Húsnæðið er við höfnina og mikið um að vera fyrir utan veggi þess í atvinnulífinu á Húsavík og innandyra streyma þessa dagana nemar og rannsakendur hvaðanæva að úr heiminum að nýta og njóta þeirrar aðstöðu sem Húsavík býr að við Skjálfanda. Á Hafnarstétt 1-3 er í uppbyggingu mikill suðupottur nýsköpunar, atvinnulífs, þekkingar og rannsókna, leiddur af Þekkingarneti Þingeyinga og heimafólki sem tekur virkan þátt í að byggja upp samfélagið. Fjölmörg tækifæri felast í því að flétta starfsemi SSNE á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar, umhverfismála og menningar, inn í það umhverfi. Það er þekkt að þar sem ólíkir aðilar mætast og leggja saman krafta sína, þar getur skapast umhverfi sem margfaldar sköpunarkraft og hugmyndauðgi, eykur slagkraft og býr til vettvang þar sem verkefni vaxa og dafna.
Á myndinni má líta starfsfólk SSNE á Húsavík fyrir framan Langaneshúsið. Myndin var tekin í síðustu viku, í fyrstu vinnuferð Albertínu sem framkvæmdastjóri SSNE til Húsavíkur, nokkrum dögum eftir að hún var ráðin til starfa. Albertína verður allajafna tvo daga í viku á Húsavík, þessa vikuna verður hún í dag miðvikudag sem og á morgun fimmtudag. Eftir sumarleyfi verður Albertína almennt á Húsavík þriðjudaga og fimmtudaga. Á myndinni má jafnframt sjá starfsfólk SSNE sem hefur fasta viðveru á skrifstofunni Húsavík. Frá vinstri: Hildur verkefnastjóri á sviði menningar, nýsköpunar og atvinnuþróunar, Smári verkefnastjóri á sviði umhverfismála, nýsköpunar og atvinnuþróunar, Albertína framkvæmdastjóri og Ari Páll verkefnastjóri á sviði menningar, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Við hvetjum ykkur sem fyrr að leita til þeirra með stór verkefni sem smá. Vinsamlegast pantið tíma með því að senda tölvupóst. Opnunartíma, símanúmer og netföng má finna hér. Við vekjum athygli á því að nú er sumarleyfistími og loka skrifstofur SSNE frá og með 18. júlí til og með 1. ágúst.