Fara í efni

Nýr verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar

Nýr verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar

Við bjóðum velkominn Gunnar Má Gunnarsson sem í gær tók við starfi verkefnisstjóra Betri Bakkafjarðar um leið og við þökkum Ólafi Áka Ragnarssyni fyrir vel unnin störf.
 
Gunnar, sem ættaður er framan úr Eyjafirði, hefur starfað á skrifstofu rektors Háskólans á Akureyri sem verkefnastjóri fyrir Rannsóknaþing Norðursins, verið aðjúnkt við Hug- og félagsvísindasvið HA, starfað sem sérfræðingur við stofnun Vilhjálms Stefánssonar og verið skrifstofustjóri Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar. Hann er með gráðu í heimskautafræðum frá Háskólanum í Cambridge og MA í íslenskum fræðum frá HÍ. Þá tók hann eina önn í Hjaltlands- og Orkneyjarfræðum við skoskan háskóla, University of the Highlands and the Islands. Það er einmitt áhugi hans á smærri samfélögum, bæði hér á landi og víðar á Norðurslóðum, sem vakti áhuga hans á að vinna að þeirri uppbyggingu sem fer fram í verkefninu Betri Bakkafjörður.
 
Aðspurður sagði hann mikilvægt að standa vörð um fjölbreytni í byggðalögum, sem og innan byggðalaga, að sækja fram og skapa tækifæri. Norðausturhorn landsins telur hann eitt af skemmtilegri svæðum landsins og er að eigin sögn spenntastur fyrir ferðaþjónustumöguleikunum á svæðinu sem og tækifærum til uppbyggingu rannsókna og vísindastarfs sem hefur beina tengingu í reynslu og bakgrunn hans.
 
Hægt er að hafa samband við Gunnar í gunnar@ssne.is og á starfsstöð hans á Bakkafirði.

 

Getum við bætt síðuna?