Nýr verkefnastjóri umhverfismála á Húsavík
Nýr verkefnastjóri umhverfismála á Húsavík
Smári Jónas Lúðvíksson hefur hafið störf sem verkefnastjóri hjá SSNE með sérstaka áherslu á umhverfismál. Smári hóf störf þann 3. janúar sl. og er með starfsstöð á Húsavík.
Smári er fæddur og uppalinn á Rifi Snæfellsnesi og er því Rifsari. Smári lærði við menntaskólann á Akureyri og tók síðan B.S gráðu í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Smári vann á handfærabátnum Kári II SH 219 á menntaskólaárunum og með háskóla var hann landvörður við Snæfellsjökulþjóðgarð.
,,Ég elti síðan konuna norður og starfaði við skrúðgarðyrkju á Húsavík rétt nægilega lengi til að klára skrúðgarðyrkjufræði í Landbúnaðarháskólanum.“
Smári hefur umfangsmikla reynslu af umhverfismálum en hann starfaði sem Garðyrkjustjóri hjá Norðurþingi sem þróaðist yfir í stöðu Umhverfisstjóra og hefur hann unnið við umhverfismál á grunni sveitarfélaga í um sex ár.
,,Umhverfismál geta verið margbreytileg en ég tel að við hér á Norðurlandi eystra höfum staðið okkur að mörgu leiti vel og erum á góðum stað, en getum alltaf gert betur. Það eru mjög mikið af tækifærum á svæðinu og með góðri samvinnu getum við verið fremst ekki bara á landsvísu heldur heimsvísu þegar kemur að Loftlags- og úrgangsmálum.“
Hægt er að ná í Smára á netfanginu smari@ssne.is eða í síma 464-5412