Fara í efni

Nýr verkefnastjóri SSNE á Húsavík

Nýr verkefnastjóri SSNE á Húsavík

Hildur Halldórsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnisstjóra SSNE með megin áherslu á menningarmál. Hún hóf störf 1. september sl., og er með starfsstöð á Húsavík.

Hildur er uppalin á Vopnafirði og er ættuð þaðan í móðurætt og í Núpasveit í föðurætt. Jafnframt er hún með sterka tengingu í Suður-Þingeyjarsýsluna og til Akureyrar þar sem hún var í menntaskóla og hluti nánustu fjölskyldu hennar býr. Hildur hefur verið búsett í Reykjavík síðustu 18 ár, þar sem hún hefur meðal annars starfað við frumkvöðlastarf og margvísleg menningartengd rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefni, hljómsveitarrekstur og kennslu.

Hildur útskrifaðist með B.A. í sálfræði frá HÍ árið 2008 og sem grunn- og framhaldsskólakennari árið 2011 ásamt því að stunda tónlistarnám við FÍH. Frá útskrift hefur hún starfað við hugmyndaþróun, verkefnastjórn og upplýsingagjöf en frá árinu 2015 hefur hún gegnt ýmsum leiðtogahlutverkum í frumkvöðlaævintýri íslensku súkkulaðigerðarinnar Omnom. Síðustu mánuði hefur Hildur svo haldið utan um verkferla og almenna umsjón á hönnunarstofunni Kolofon þar til hún og fjölskyldan fluttu norður í sæluna.

Hildur hefur að eigin sögn mikinn áhuga á markaðssetningu, verkefnastjórnun, menningu og nýsköpun og bíður spennt eftir að heyra frá öllu kraftmikla fólkinu á svæðinu og aðstoða það við að færa hugmyndir í átt að veruleika, enda einstakt umhverfi á Norðurlandi og tækifærin mörg.

Hægt er að ná í hana með því að senda tölvupóst á hildur@ssne.is

 

Getum við bætt síðuna?