Nýr styrktarsjóður fyrir rannsóknir í mannvirkjagerð
Nýr styrktarsjóður fyrir rannsóknir í mannvirkjagerð
Stofnaður hefur verið nýr sjóður til að efla rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjagerð á Íslandi. Sjóðurinn, sem hefur fengið nafnið Askur, er fjármagnaður sameiginlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins. Opnað var fyrir umsóknir í fyrsta sinn í síðustu viku og hægt er að sækja um styrki fyrir rannsóknar- eða þróunarverkefni á sviði mannvirkjamála. Hlutverk Asks er að veita styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar í samræmi við markmið laga nr. 160/2010, um mannvirki.
Við úthlutun sjóðsins fyrir árið 2021 er lögð áhersla á:
- raka- og mygluskemmdir,
- byggingarefni,
- orkunýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda,
- tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum og
- gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis .
Heildarfjárhæð til úthlutunar vegna umsókna á árinu 2021 er 95 milljónir kr.
Með starfsemi sjóðsins fær HMS mikilvæga yfirsýn yfir rannsóknarumhverfi iðnaðarins hverju sinni. Á sama tíma er hægt að beina rannsóknum að þeim þáttum sem nauðsynlegt er að þróa betur eins og t.d. raka- og mygluskemmdum eða vistvænni mannvirkjagerð. Í framhaldinu stefnir HMS að því að mynda vísindaráð í samstarfi við háskólasamfélagið og iðnaðinn, sem mun marka stefnu fyrir mannvirkjarannsóknir til næstu ára.
Skila þarf inn rafrænum umsóknum í gegnum http://www.hms.is/askur en á þeirri vefsíðu má jafnframt finna nánari upplýsingar um úthlutunina og starfsemi Asks. Umsóknarfrestur er til og með 9. desember 2021.