Nýárspistill framkvæmdastjóra
Nýárspistill framkvæmdastjóra
Nú þegar við höfum kvatt árið 2023 langar mig að rifja upp nokkra hápunkta síðasta árs í starfsemi SSNE. Þar verð ég fyrst að nefna það stóra skref sem stigið var á ársþingi SSNE sem haldið var á Siglufirði í apríl síðastliðnum. Þar samþykkti sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi eystra að stækka stjórn SSNE þannig að nú eiga öll sveitarfélögin sæti við stjórnarborðið. Við fundum það strax á fyrsta fundi nýrrar stjórnar hversu jákvæð ákvörðun það var og er það sérstaklega dýrmætt fyrir samtök eins og SSNE að öll aðildarsveitarfélögin taki á þennan hátt enn virkari þátt í starfi samtakanna.
Á síðasta ári var annað stórt skref tekið á haustþingi SSNE þegar Samgöngustefna Norðurlands eystra 2023-2033 var samþykkt og hefur hún nú þegar reynst sérstaklega vel til að halda á lofti hagsmunum landshlutans gagnvart stjórnvöldum, en nú er til umfjöllunar á Alþingi þingsályktunartillaga um Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028. Þegar sveitarfélögin ná saman um að tala saman einum rómi þá eykur það sannarlega líkurnar á árangri.
Annars erum við hjá SSNE búin að vera á fullu að skipuleggja árið framundan og eru mörg stór verkefni framundan. Þar verður væntanlega fyrirferðamest vinna við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra, en núgildandi Sóknaráætlun rennur út í lok árs. Lögð er áhersla á aðkomu sem flestra íbúa landshlutans við gerð áætlunarinnar og vil ég hvetja öll áhugasöm til að taka þátt í vinnunni, m.a. með því að gefa kost á ykkur í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.
Þá má nefna Fjárfestahátíðina Norðanáttar á Siglufirði sem verður haldin 20. mars næstkomandi og Ársþing SSNE 2024 sem verður haldið 18.-19. apríl í Þingeyjarsveit.
Eins og þið vitið vonandi flest þá bjóðum við einnig upp á ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningarmála til einstaklinga, hópa og fyrirtækja á Norðurlandi eystra og taka ráðgjafar okkar glöð á móti ykkur á starfsstöðvum okkar víðsvegar um landshlutann. Ef þú eða einhver sem þú þekkir þarf á ráðgjöf að halda þá má finna allar upplýsingar um ráðgjöfina okkar á heimasíðunni okkar, auk ýmissa gagnlegra upplýsinga fyrir frumkvöðla og fyrirtæki.
Það er auðvitað fjölmargt fleira í bígerð hjá okkur sem verður kynnt sérstaklega á næstu vikum og mánuðum og vil ég að lokum benda á að það er auðvelt að skrá sig á póstlista SSNE og fá þannig reglulega helstu fréttir af starfseminni.
Það er spennandi ár framundan á Norðurlandi eystra og ég vona að árið 2024 reynist okkur öllum gæfuríkt og fullt af spennandi tækifærum!