Ný íbúakönnun landshlutanna
Ný íbúakönnun landshlutanna
Út er komin ný íbúakönnun landshlutanna. Í könnuninni er afstaða þátttakenda til eigin hamingju og almennrar ánægju með þjónustu sveitarfélagsins þar sem þeir búa dregin saman. Þá mælir könnunin alls 40 búsetuskilyrði eftir 24 landssvæðum. Norðurlandi eystra er skipt í þrjú svæði; Akureyri, Eyjafjörð (utan Akureyrar) og Þingeyjarsýslu.
Eyfirðingar ánægðastir með búsetuskilyrði
Þegar afstaða íbúa til búsetuskilyrða er tekin saman og svæðunum gefin vigtuð einkunn, skipa Eyfirðingar efsta sæti með 7,2 stig af 10. Í öðru sæti er Skagafjarðarsýsla með 6,9 og Akureyri í því þriðja með 6,8. Þingeyjarsýsla er í 9. sæti með 6,0 og hækkar um 0,7 í einkunn frá síðustu könnun, sem kom út 2020.
Gott að búa á Norðurlandi eystra
Meðal spurninga var hvort almennt séð væri gott eða slæmt að búa þar sem þau bjuggu. Almennt voru allra svæða ánægðir með að búa þar sem þeir bjuggu, en hvað þetta varðar kom Norðurland eystra mjög vel út. Í fyrsta sæti var Akureyri, þar sem 96% íbúa töldu frekar eða mjög gott að búa, í öðru sæti Þingeyjarsýsla með 95% og í þriðja sæti Eyjafjörður með ríflega 93%.
Í ljósi þess hve gott þykir að búa á Norðurlandi eystra kemur ekki á óvart að þar voru meðal þeirra sem ólíklegast töldu að þeir myndu flytjast búferlum frá sínu sveitarfélagi á næstu tveimur árum. Ólíklegastir til þess að flytja voru íbúar á Akranesi og í Hvalfirði, en því næst komu Akureyri, Þingeyjarsýsla og Eyjafjörður.
Hamingjan
Þegar spurt er um hamingju reynist henni merkilega jafnt dreift um allt land. Þátttakendur voru beðnir um að meta almenna hamingju sína á skalanum 1 til 10. Hæstu meðaleinkunn íbúa fékk Skagafjarðarsýsla, 8,08 en lægstu meðaleinkunn fengu Strandir og Reykhólar, 7,48. Það munar því aðeins 0,61 á hæstu og lægstu einkunn. Á Norðurlandi eystra voru Eyfirðingar hamingjusamastir með 7,93 í einkunn en Akureyri (7,81) og Þingeyjarsýsla (7,80) rétt undir meðallagi á landsvísu.
Það vekur athygli að ungt fólk, 18-34 ára, metur hamingju sína almennt minni en aðrir þátttakendur, eins og fram hefur komið í fyrri könnunum. Aðeins á tveimur svæðum gefur unga fólkið hamingju sinni hærri einkunn en aðrir, og Þingeyjarsýsla lendir í fimmta sæti þegar horft er til hamingju þessa aldurshóps.
Í Deiglunni er ítarleg grein gerð fyrir niðurstöðum úr öllum þáttum sem spurt er um í könnuninni, og fyrir hvert svæði er gerð grein fyrir stöðu og mikilvægi búsetuskilyrða, niðurstöður könnunar bornar saman við síðustu könnun og einnig gerður samanburður viðkomandi svæðis við höfuðborgarsvæðið.
Staða og mikilvægi búsetuskilyrða á Norðurlandi eystra
Á Akureyri komu náttúra, internet, friðsæld og öryggi best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis. Heilsugæsla, þjónusta við aldraða, dvalarheimili, loftgæði, laun, framfærsla, vöruverð og skipulagsmál komu verst út að teknu tilliti til mikilvægis.
Í Eyjafirði voru náttúra og friðsæld þeir þættir sem komu best út, þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis, og þar á eftir öryggi og loftgæði. Vöruverð, vegakerfið og heilsugæslan komu verst út að teknu tillit til mikilvægis. Almenningssamgöngur og fasteignamarkaðurinn stóðu líka illa en voru ekki eins mikilvægir þættir og aðrir þættir könnunarinnar.
Í Þingeyjarsýslu komu náttúra og friðsæld einnig best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis og þar á eftir öryggi og loftgæði. Vöruverð kom lang verst út hvað varðar gæði með hliðsjón af mikilvægi og þar á eftir fylgdi vöruúrval. Leigu- og sölumarkaður íbúða komu illa út sem og almenningssamgöngur og námsmöguleikar á háskólastigi, en töldust ekki eins mikilvægir og aðrir þættir könnunarinnar.
Samanburður við könnun frá 2020
Rafmagn batnaði mest á milli kannana á Akureyri af þeim þáttum sem jukust að mikilvægi og möguleikar til eigin atvinnurekstrar fylgir þar fast á hæla. Fasteignamarkaðurinn, vöruverð og dvalarheimili voru einna mest áberandi meðal þeirra þátta sem gáfu eftir að gæðum á milli kannana en jukust jafnframt að mikilvægi. Heilsugæsla, loftgæði og þjónusta við fatlaða ásamt fleiri voru meðal þátta sem versnuðu á milli kannanna og töpuðu jafnframt mikilvægi. Atvinnuúrval, laun ásamt fleiri þáttum jukust að gæðum á milli kannana en misstu jafnframt mikilvægi.
í Eyjafirði var rafmagn sá þáttur sem lagaðist mest á milli kannanna og jókst samtímis lítið eitt að mikilvægi. Þátturinn leiguíbúðir jókst mest að mikilvægi á milli kannanna á svæðinu en versnaði samtímis líka einna mest. Í þeim fjórðungi (hluta) var þjónusta við fatlaða einnig áberandi ásamt heilsugæslu, dvalarheimili og íbúðum til sölu. Tónlistarskóli og menning ásamt fleiru lentu í þeim fjórðungi sem náði yfir þætti sem versnuðu á milli kannanna og töpuðu jafnframt mikilvægi. Atvinnuöryggi, atvinnuúrval og fleiri voru á meðal þeirra þátta sem jukust að gæðum á milli kannana en misstu jafnframt mikilvægi samtímis.
Í Þingeyjarsýslu voru möguleikar til eigin atvinnureksturs sá þáttur sem lagaðist mest á milli kannanna og jókst samtímis mest að mikilvægi. Íbúðir til sölu og leiguíbúðir versnuðu mest á milli kannanna á svæðinu ásamt vegakerfi og jukust samtímis einna mest að mikilvægi. Leikskóli, heilsugæsla, vöruverð og almenningssamgöngur voru á meðal þátta sem versnuðu á milli kannanna og töpuðu jafnframt mikilvægi. Atvinnuöryggi batnaði mest að gæðum á milli kannana af þeim þáttum sem misstu mikilvægi samtímis.
Samanburður við Höfuðborgarsvæðið
Athygli vekur að flestir þættir eru mikilvægari Akureyringum en höfuðborgarbúum og þar sker háskólinn sig úr ásamt atvinnuöryggi, atvinnuúrvali og framhaldsskólum. Það er einnig athyglisvert að miklu fleiri þættir eru taldir af íbúum viðkomandi landshluta betri á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu (HBSV). Háskólinn kom best út úr þessum samanburði þar sem Akureyringar voru mun ánægðari með hann en höfuðborgarbúar með sína, auk þess sem hann skipti þá meira máli en háskólar HBSV íbúum þess landsvæðis. Laun komu lang verst út úr þessum samanburði, því næst dvalarheimili en þau voru líka Akureyringum mikið mikilvægari en höfuðborgarbúum.
Í Eyjafirði voru umferð, loftgæði, friðsæld, leikskóli og þjónusta við aldraða mest áberandi meðal þeirra þátta sem mældust betri en á HBSV og mikilvægari íbúum en íbúum HBSV. Vöruverð, atvinnuúrval, atvinnurekstur og atvinnuöryggi voru áberandi þættir af þeim sem voru verri í landshlutanum en á HBSV og mikilvægari fólki þar en á HBSV. Þátturinn vöruverð er heldur verri í þessum samanburði en ekki eins mikilvægur á meðan atvinnuúrval er mikilvægara en vöruverð en ekki eins slæmt og það. Almenningssamgöngur, vöruúrval og menning voru verri að gæðum en á HBSV og samtímis ómikilvægari en íbúum HBSV. Skipulagsmál og íbúðir til sölu voru þættir Eyfirðingar mátu betri að gæðum en á HBSV en samtímis ómikilvægari en íbúum HBSV.
Umferð, heilsugæsla, friðsæld og þjónusta við fólk af erlendum uppruna voru einna mest áberandi meðal þeirra þátta sem mældust betri í Þingeyjarsýslu en á HBSV og mikilvægari íbúum þar en íbúum HBSV. Vöruverð, vöruúrval og atvinnuúrval voru áberandi meðal þátta sem mældust verri í landshlutanum en á HBSV og mikilvægari fólki þar en á HBSV. Almenningssamgöngur er sá þáttur sem var hvað verstur í samanburði við HBSV en jafnframt síst mikilvægastur íbúum svæðisins í samanburði við íbúa HBSV. Sorpmál, skipulagsmál og umhverfismál mældust betri en á HBSV og samtímis ómikilvægari en íbúum HBSV. Þeir voru þó það nærri ásunum að munurinn var ekki marktækur m.t.t. „stöðu“.
Um könnunina
Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 og síðan á þriggja ára fresti. Hún var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu og hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Hún var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki og voru þátttakendur um 11.500, þar af um 1.240 á Norðurlandi eystra, sem er fækkun frá síðustu könnu. Þátttaka hefði gjarnan mátt vera meiri, ekki síst meðal ungs fólks og fólks af erlendum uppruna.
Hér má nálgast heildarsamantekt á niðurstöðum íbúakönnunar 2023