Námskeið um samgöngumiðað skipulag og virka ferðamáta
Námskeið um samgöngumiðað skipulag og virka ferðamáta
LOFTUM og SSNE stóðu að námskeiði um samgöngumiðað skipulag og virka ferðamáta á Stéttinni á Húsavík í morgun. Námskeiðið var haldið af Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, verkefnastjóra hjá SSNE, og er það fyrsta af mörgum í námskeiðsröð þar sem fræðslan er aðlöguð að stærð og staðbundnu samhengi viðkomandi sveitarfélags. Námskeiðið byggir á nýjum leiðbeiningum Skipulagstofnunar; Mannlíf, byggð og bæjarrými þar sem fjallað er um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. Sjá hér: MannlifByggdogBaejarrymi.pdf (skipulag.is)
Námskeiðinu var skipt upp í tvo hluta, skipulag og hönnun. Í skipulagshlutanum var farið yfir orsakasamhengi milli landnotkunar og vistvænna samgangna, blöndun byggðar og hvað væri umferðarskapandi starfsemi. Einnig var rýnt í heildstætt kerfi vistvænna samgangna og hvernig það er útfært.
Í hönnunarhlutanum var farið yfir hvað einkennir vandaða gatnahönnun, afhverju greiðfærni skiptir máli fyrir þau sem ganga og hjóla, öryggi óvarðra vegfarenda, mikilvægi breiðra gangstétta, bíla- og hjólastæðasstefnu, vandaðar strætóstöðvar og hvernig hægt sé að auka gróður götum.
Á námskeiðinu var nærumhverfi þátttakenda skoðað og komu fram fjölmargar hugmyndir um hvað mætti betur fara og höfðu þátttakendur orð á því að helst hefði námskeiðið mátt vera lengra. Svo mikill var áhuginn.
Næsta námskeið verður haldið á Akureyri þriðjudaginn 30.apríl milli 10:00 og 12:00. Hægt er að skrá sig hér:
Samgöngumiðað skipulag og virkir ferðamátar | Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - SÍMEY (simey.is)
Námskeiðið er hluti af Loftum verkefninu og er því starfsfólki sveitarfélaga innan SSNE að kostnaðarlausu.