Fara í efni

Mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir nýsköpun og þróun landsbyggðanna

Við úrvinnslu gagna úr Fyrirtækjakönnuninni kemur fram að í skapandi greinum fer fram mest nýsköpun …
Við úrvinnslu gagna úr Fyrirtækjakönnuninni kemur fram að í skapandi greinum fer fram mest nýsköpun af þeim atvinnugreinum sem skoðaðar voru í landsbyggðum. Niðurstöður sýna auk þess að uppbyggingarsjóðirnir hafa marktæk jákvæð áhrif á nýsköpun í landsbyggðum. Með öðrum orðum, ef horft er til þeirra gagna sem safnað var í fyrirtækjakönnuninnni, mætti segja að engin markviss nýsköpun væri að mælast í landsbyggðum ef uppbyggingarsjóðanna nyti ekki við.

Mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir nýsköpun og þróun landsbyggðanna

Rannsóknasetur skapandi greina stóð fyrir málþingi þann 20. nóvember síðastliðinn í Háskólanum á Akureyri, þar sem fjallað var um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum. Málþingið var vel sótt og vakti athygli fyrir áhugaverð erindi og líflegar umræður. Málþingið hófst með opnunarávarpi Hólmfríðar Sveinsdóttur rektors Háskólans á Hólum, sem lagði áherslu á mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir framþróun landsbyggðanna og búsetuvali.

Er nýsköpun fyrirtækja ólík eftir landshlutum á Íslandi, skapandi greinum og öðrum atvinnugreinum?
Vífill Karlsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og dósent við Háskólann á Akureyri, kynnti rannsókn síns teymis á landfræðilegum mismun í nýsköpun á Íslandi. Þau skoðuðu hvort nýsköpun fyrirtækja væri ólík eftir landshlutum og greindi sérstaklega á milli skapandi greina og annarra atvinnugreina. Við úrvinnslu gagna úr fyrirtækjakönnun sem framkvæmd var árið 2022, kemur fram að í skapandi greinum fer fram mest nýsköpun af þeim atvinnugreinum sem skoðaðar voru í landsbyggðum. Niðurstöður sýna auk þess að uppbyggingarsjóðirnir hafa marktæk jákvæð áhrif á nýsköpun í landsbyggðum. Með öðrum orðum, ef horft er til þeirra gagna sem safnað var í fyrirtækjakönnuninnni, mætti segja að engin markviss nýsköpun væri að mælast í landsbyggðum ef uppbyggingarsjóðanna nyti ekki við.

Samkvæmt kenningum og niðurstöðum rannsókna hefur nálægð við háskóla jafnframt jákvæð áhrif á nýsköpun. Í samræmi við þær upplýsingar er mikilvægt að vinna að því að vera með listnám á háskólastigi í landsbyggðunum.

Innskot: Rafræn úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra vegna 2025 fer fram 5. desember kl. 15:00 - 16:00. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með gróskunni í landshlutanum.

Stuðningur við frumkvöðla og skapandi greinar eflir atvinnulíf í landsbyggðum
Stefán Pétur Sólveigarson verkefnastjóri Hraðsins, miðstöðvar nýsköpunar, fjallaði um uppbyggingu og áhrif nýsköpunarjarðvegs og hvernig stuðningur við frumkvöðla og skapandi greinar getur eflt atvinnulíf í landsbyggðum. Þá talaði hann jafnframt um mikilvægi STEAM menntunar á öllum skólastigum sem og hvernig Hraðið hefur aukið aðgengi að tækjum og aðbúnaði sem styður þá vegferð á Húsavík. Stefán Pétur sagði jafnframt frá viðburðunum Hönnunarþing og Krubbur, en báðir þessir viðburðir fræða, nýskapa, og auka menningarlíf í sínu nærumhverfi. Hægt er að sjá betur fyrir hvað Hraðið stendur, á hradid.is

Leiðir til að stuðla að jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis
Erna Kaaber, sérfræðingur við Háskólann á Bifröst, benti á að samspil menningar og nýsköpunar gæti skapað tækifæri fyrir sjálfbæra þróun og efnahagslega uppbyggingu í landsbyggðum. Í erindinu lagði Erna áherslu á að menning og skapandi greinar gætu verið lykilþættir í að draga úr landfræðilegum mismuni og stuðla að jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis. Erna benti jafnframt á að með markvissri stefnumótun og stuðningi megi nýta þessa þætti til að efla nýsköpun, atvinnusköpun og samfélagslega þróun í landsbyggðum.

Einnig dró hún sérstaklega fram að þörf væri á frekari rannsóknum á því hvernig menningarstarfsemi getur haft áhrif á efnahagslega og félagslega þróun í dreifbýli og hvernig hægt sé að nýta þá þekkingu til að móta stefnu sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Nokkrir sjóðir styðja við framkvæmd slíkra rannsókna og veita t.d. ráðgjafar landshlutasamtaka upplýsingar um þá.

Frá sjónarhorni LungA
Á málþinginu flutti Björt Sigfinnsdóttir, meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri LungA-hátíðarinnar, erindi þar sem hún deildi reynslu sinni af uppbyggingu hátíðarinnar og áhrifum hennar á samfélagið á Seyðisfirði og víðar. Hátíðin, sem hófst árið 2000, þróaðist frá tveggja daga viðburði í 11 daga alþjóðlegt verkefni með fjölda listviðburða og námskeiða sem sameinuðu listamenn og ungmenni. Björt lagði áherslu á mikilvægi þess að skapandi menningarverkefni eins og LungA fengi viðeigandi stuðning, þar sem þau gegna lykilhlutverki í að efla skapandi hugsun og samfélagsþróun í landsbyggðunum. Hún hvatti til frekari vitundarvakningar innan stjórnsýslu um gildi menningarverkefna sem hreyfiafla í samfélaginu.


Pallborðsumræður og lokaorð
Að loknum erindum voru pallborðsumræður undir stjórn Eyjólfs Guðmundssonar, fyrrverandi rektors Háskólans á Akureyri. Þar tóku þátt Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, Örlygur Hnefill Örlygsson framleiðandi, Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi og yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, og Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst. Umræðurnar beindust að því hvernig best væri að nýta menningu og skapandi greinar til að styrkja samfélög í landsbyggðum og hvaða áskoranir og tækifæri væru fram undan.

Málþingið var mikilvægt innlegg í umræðuna um hlutverk menningar og skapandi greina í þróun landsbyggða og vakti upp margar áhugaverðar spurningar um framtíðarsýn og stefnumótun á þessu sviði. Hægt er að hofa á viðburðinn í heild sinni hér.
-Fréttin byggir á samantekt Rannsóknaseturs skapandi greina.


Skilgreining á skapandi greinum samkvæmt Menningar- og viðskiptaráðuneytinu:
Með ,,skapandi greinum” er átt við starfsemi sem sprettur úr sköpunargleði, þekkingu og hæfileikum fólks og sem eflir velferð og eykur atvinnutækifæri með því að skapa og nýta þekkingarlegan auð.

Samantekt Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs á samspili menningar og skapandi greina:

Í grein Höllu kemur fram að listir og sköpun séu auðlindir sem lúti eigin lögmálum. Menning er það sem þær gefa af sér til samfélagsins. Skapandi greinar eru samheiti yfir listir, sköpun, hugverk, mennningu, atvinnu- og viðskiptalíf sem af þeim skapast.

Núna eru drög að nýrri Sóknaráætlun aðgengileg í samráðsgátt. Sóknaráætlun er grundvöllur vinnu landshlutasamtakanna næstu fimm árin. Stefnan hefur áhrif á ákvörðun um val á áhersluverkefnum og úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

--> Íbúar og aðrir hagaðilar eru hvattir til að kynna sér nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra í samráðsgáttinn. Opið er fyrir umsagnir en samráði lýkur 6. desember 2024.

 

Getum við bætt síðuna?