Mikill áhugi á grænum styrkjum á Norðurlandi eystra
Mikill áhugi á grænum styrkjum á Norðurlandi eystra
Samband íslenskra sveitarfélaga, Rannís, SSNE og Eimur stóðu fyrir kynningarfundi á styrkjaumhverfinu fyrir græn verkefni í síðustu viku. Kynningarfundurinn var haldinn á Akureyri, en einnig sendur út í streymi. Aðsókn var nokkuð jöfn í gegnum netheima og á staðfund, en í allt sóttu 40 manns fundinn.
Farið var yfir mismunandi áætlanir Evrópusambandsins; rannsókna- og nýsköpunaráætlunina Horizon Europe og umhverfis- og loftslagsáætlunina LIFE; hvernig verkefni séu gjaldgeng í áætlaninarnar og hvernig hægt er að koma að verkefnunum með mismunandi hætti. Í einfölduðu máli má segja að ákveðnir aðilar taki að sér að leiða verkefnin á meðan aðrir aðilar geta verið þátttakendur með afmarkaðan verkhluta, eða stutt við verkefnið án þess að þiggja fjárstyrk fyrir en í staðinn fengið þekkingu og tengslanet.
Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims, sagði stuttlega frá vegferð Eims í LIFE-umsóknarferli en Eimur og Íslensk nýorka eru með fyrstu íslensku aðilum til að leiða verkefni í þeirri áætlun. Verkefninu er ætlað að efla getu sveitarfélaga til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og í samstarfi við atvinnulíf svæðanna.
Komið var inn á verkefnið European City Facility, sem Samband íslenskra sveitarfélaga heldur utan um, en það snýst um að styrkja sveitarfélög til að útbúa fjárfestingaáætlanir vegna orkuskipta. Það verkefni rímar því afskaplega vel við vinnu SSNE og Eims á svæðinu, en rík áhersla er lögð á að efla fjárfestingar til grænna innviða á svæðinu. Frekari kynning á European City Facility verður auglýst síðar.
Á heimasíðu Rannís er að finna yfirlit yfir innlenda og erlenda sjóði, m.a. þá sem rætt var um á kynningunni. Lesendur eru hvattir til að prófa leitarvélina og athuga hvort að verkefni sem unnið er að á svæðinu, eða stendur til að vinna, falli undir sjóðina. Einnig má hafa beint samband við starfsfólk Rannís með spurningar og vangaveltur.