Fara í efni

Mikið að gera í úrgangsmálum

Mikið að gera í úrgangsmálum

Hafin er vinna við endurskoðun „svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs“. Endurskoðun svæðisáætlunar er fyrsti áfangi í vinnu til að uppfylla skyldur frumvarps um hringrásarhagkerfi sem var samþykkt 16. júní 2021 og tekur að mestu gildi 1. jan 2023.

Auk þess að endurskoða svæðisáætlun þarf að endurskoða sorphirðusamþykktir og aðlaga gjaldskrár að nýju kerfi við söfnun og innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Eftir 1. jan 2023 mun hver og einn greiða fyrir það sem hann hendir í samræmi við þyngd eða rúmmál heimilistunna. Sveitarfélög mega eingöngu rukka 25% af heildarkostnaði sveitarfélaga sem fast gjald á fasteignareiningu frá og með 1. jan 2025 en 50% fram að því.

Í lögum er gerð krafa á sérstaka söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Þetta mun hafa áhrif á framkvæmd sorphirðu í mörgum sveitarfélögum. Við hér á Norðurlandi eystra erum í góðri stöðu því við höfum verið framarlega í flokkun og því mun krafa um flokkun við húsvegg hafa minni áhrif og mörg sveitarfélög á starfssvæði SSNE eru nú þegar að safna þessum flokkum sorps við húsvegg. Einhverjir munu þó sjá fleiri tunnur 2023.

Auk aðlögunar að lögum er staðan sú að flest sveitarfélög við Eyjafjörð eru á framlengdum sorphirðusamningum eða þeir renna út á þessu eða fyrri hluta næsta árs. Því þarf að hefja vinnu við að gera útboðsgögn og bjóða út á þessu ári. Vinna við gerð útboðsgagna er öll flóknari í ár vegna þess að erfitt er að nýta eldri gögn og meta þarf áhrifin af nýjum lögum og hvort mögulega breyttar áherslur í svæðisáætlun hafi áhrif á framkvæmd sorphirðu í sveitarfélögunum.

17.janúar síðastliðin var klukkutíma fjarfundur um stöðu sorpmála í Eyjafirði þar sem almennur vilji var fyrir sameiginlegri stefnumótun, gerð útboðsgagna og frekari samræmingu og samvinnu í þjónustu. Stefnt er að sambærilegum fundi í Þingeyjasýslum í byrjun mánaðar og sameiginlegur fundur með áherslu á stefnumörkun í svæðisáætlun.

Meðhöndlun úrgangs er framtíðar verkefni sem er að verða fyrirferðameira í umræðunni en það hefur verið. Nýlega er búið að vinna skýrslu um framtíðarlausn til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar um hagkvæmni einnar stórrar brennslu á suðverstur horninu og erum við að vinna að hagkvæmni mati Líforkuvers á okkar svæði. Bæði þessi verkefni hlaupa á milljörðum og munu verða liður í framtíðar lausnum í Úrgangsmálum.

Getum við bætt síðuna?