Metnaðarfull dagskrá á Siglufirði
Metnaðarfull dagskrá á Siglufirði
Dagana 7. - 9. júní fer fram alþjóðleg listahátíð skapandi fólks á vegum Alþýðuhússins. Hátíðin í ár er jafnframt hluti af dagskrá Listahátíðar Reykjavíkur 2024.
Hátíðin ber heitið INTOO og fór fram í Danmörku árið 2023 og 2026 fer hún fram í New York. Aðgengi fyrir íbúa Íslands og ekki síðst Norðlendinga, er því einstaklega gott í ár. Stjórnendur INTOO eru þau Aðalheiður S. Eysteinsdóttir (IS) og Will Owen (US).
Siglufjörður mun iða af sköpunarkrafti alla hátíðardagana en á fjölbreyttri dagskránni eru meðal annars myndlistarsýningar, gjörningar, útilistaverk, tónleikar og ljóðalestur. Viðburðirnir fara fram bæði í Alþýðuhúsinu og víðs vegar um bæinn, inni og úti. Á hátíðina mætir fjölbreyttur hópur listafólks víða að, með opinn huga og einlæga löngun til að verða fyrir áhrifum hvert af öðru og af heimafólki. Á slíku stefnumóti verður til listrænn galdur.
Metnaðarfulla dagskrána má finna hér, bæði á íslensku og ensku.
Við bendum á að á föstudeginum 7. júní kl. 17:30-18:00 fer fram móttaka á vegum Eyrarrósarinnar og Listahátíðar í Alþýðuhúsinu.
Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði var handhafi Eyrarrósarinnar árið 2023 fyrir framúrskarandi starf á landsvísu, en Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Sjá nánar um viðurkenninguna og starf í Alþýðuhúsinu hér.
,,Menningarstarfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sýnir svo ekki verður um villst, að með eldmóði, úthaldi og seiglu getur einstaklingar haft stórtæk áhrif á samfélag sitt. Í gegnum Alþýðuhúsið streymir ekki bara listafólk úr ýmsum áttum heldur flæða þar í gegn hugmyndir og ferskir vindar sem bæði hreyfa við og næra samfélagið. Gerist það ekki síst þegar heimafólk tekur virkan þátt í viðburðunum. Og allt gerist þetta vegna þess að atorkusöm listakona tók að sér hús."
- úr umsögn nefndar Eyrarrósarinnar
Hvorki er fast miðaverð á hátíðina né á einstaka viðburði. Öll greiða það sem þau hafa ráð á, en viðmiðunarverð og nánari upplýsingar um viðburðastaði og aðgengi má finna hér. Allur ágóði rennur til listafólksins sem kemur fram á INTOO
--> Hér er hlekkur á facebook viðburð hátíðarinnar: https://www.facebook.com/events/343363718454572/
--> Hér er hlekkur á heimasíðu hátíðarinnar þar sem finna má dagskrá, upplýsingar um listafólkið, yfirlit sýningarrýma og aðgengisupplýsingar, á íslensku og ensku: INTO festival. Hátíðin gekk undir heitinu INTO í fyrra, í ár INTOO og næsta ár verður það INTOOO í New York.
--> Hér er hlekkur á viðburðinn inn á dagskrá listahátíðar í Reykjavík: INTO Festival | Listahátíð í Reykjavík (listahatid.is)
Almennings samgöngur eru til Siglufjarðar
Strætó 56 fer frá Egilsstöðum og strætó 57 frá Reykjavík til Akureyrar og þaðan fer strætó 78 til Siglufjarðar.
Frekari upplýsingar má finna á straeto.is
Intoo listahátíð hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra sem gefur vísbendingar um það hversu mikilvægt tæki Sóknaráætlun er fyrir stjórnvöld, hvað varðar uppbyggingu, hvatningu og framsækni frumkvöðla landsbyggðanna. Bæði Innviðaráðuneytið og Menningar- og viðskiptaráðuneytið fjármögnuðu síðustu úthlutun úr Sóknaráætlun.
Í september verður opnað fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð fyrir árið 2025.
Á næstu vikum fer af stað mótun nýrrar Sóknaráætlunar sem gildir í fimm ár fyrir landshlutann. Við hvetjum öll áhugasöm um að taka þátt í samtali og þróun markmiða fyrir landshlutann. Það er til dæmis hægt að gera með því að skrá sig í samráðsvettvang SSNE og í haust verða haldnar opnar vinnustofur sem verða auglýstar síðar á miðlum SSNE.