Matarboð Nýsköpunarvikunnar
Matarboð Nýsköpunarvikunnar
SSNE og SSNV munu taka þátt í Nýsköpunarvikunni dagana 26. maí til 2. júní og verður dagskráin fjölbreytt og ætlað að endurspegla frumkvöðlakraftinn og þá nýsköpun sem er í gangi á Norðurlandi.
Matarboðið er einn af þeim viðburðum sem verða í gangi alla daganna. Viðburðunum er ætlað að para saman matarfrumkvöðla við veitingaþjónustu og skapa einstaka matarupplifun fyrir gesti.
Á undanförnum árum hefur verið mikil gróska í þróun matvöru hjá íslenskum frumkvöðlum. Á tímum sem þessum hefur það komið bersýnilega í ljós hversu mikil þörf er fyrir íslenska framleiðslu og þróun á nýjungum til að tryggja sjálfbærni. Í öllum hlutum landsins er unnið að nýsköpun og hér sjáum við tækifæri til að kynna þá góðu vinnu.
Hér er verið að búa til vettvang fyrir frumkvöðla og veitingastaði til að vinna saman, kynna sig, starfsemi sína og vörur ásamt því að varpa ljósi á hversu fjölbreytt og margbreytilegt íslenskt frumkvöðlastarf er orðið.
Hugmyndin að Matarboðinu felur í sér að bjóða veitingastað í samstarf við einn eða fleiri matarfrumkvöðla. Veitingastaðurinn kaupir vöruna af þeim og nýtir hráefnið til að útbúa spennandi rétti; parar t.d. mat við íslenskt öl eða notar íslenskt hráefni á skemmtilegan og framandi hátt. Þannig verður til nokkurs konar nýsköpunarmatseðill.
Þetta samstarf veitingastaða og frumkvöðla í Nýsköpunarvikunni er gullið tækifæri fyrir báða aðila. Annars vegar hjálpar þetta frumkvöðlum að stíga næstu skref og vekja athygli á nýjum vörum. Hins vegar er þetta mikilvæg innspýting til veitingastaða á áhugaverðum tímum. Frumkvöðlum er hér með boðið að taka þátt í þessu verkefni.
Teymið bakvið Matarboðið er teymið í Nýsköpunarvikunni ásamt stofnendum Vegangerðarinnar: Kristján Thors og Atli Stefán Yngvason. Vegangerðin er frumkvöðull í sjálfbærri matargerð án dýraafurða.
Nýsköpunarvikan mun vekja athygli á Matarboðinu með öflugri markaðssetningu fram að og á meðan vikan stendur yfir.
Matarboðið er nýsköpunarhátíð og gefur fólki tækifæri til að stíga út fyrir kassann og feta nýjar slóðir. Í þessu starfi þarf oft ekki meira en lítil skref til að færa verkefnið upp á næsta stig.
Skráðu þig hér og við verðum í sambandi: https://icelandinnovationweek.wufoo.com/forms/m4tfvui0suwoyl/
Ef þú vilt vita meira sendu okkur skilaboð á Facebook: https://www.facebook.com/nyskopunarvikan
Til að fá frekari upplýsingar má hafa samband við Silju, silja@ssne.is eða Elvu, elva@ssne.is