Mælaborð um íbúakönnun landshlutanna nú aðgengilegt
Mælaborð um íbúakönnun landshlutanna nú aðgengilegt
Íbúakönnun landshlutanna fór fram á netinu í september og október 2020. Tilgangur hennar var að kanna hug íbúa til búsetuskilyrða, aðstæður á vinnumarkaði og afstöðu til nokkurra mikilvægra atriða, s.s. hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum. Könnunin var send út á íslensku, ensku og pólsku og alls fengust 10.253 svör. Skýrslu um könnunina má lesa mér.
Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafði yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd könnunarinnar, ásamt því að vinna úr niðurstöðum með Helgu Maríu Pétursdóttur hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri safnaði netföngum og mat stærð úrtaks.
Byggðastofnun hefur nú gefið út mælaborð þar sem hægt er að skoða niðurstöður könnunarinnar eftir bakgrunni svarenda og bera saman búsetuþætti á 25 svæðum. Í mælaborðinu er hægt að einangra svör ákveðins hóps, til dæmis aldurshópsins 18-34 ára eða Þingeyinga, með því að smella á viðkomandi hóp á súluritum eða í töflum. Þar er jafnframt hægt að skoða stöðu og mikilvægi 40 búsetuþátta, bæði eftir svæðum og innan svæða.