Loftlagsstefna sveitarfélaga
Loftlagsstefna sveitarfélaga
Fagráð umhverfismála hjá SSNE bauð starfsfólki sveitarfélaga er sinna umhverfismálum á vinnustofu að Breiðumýri í Þingeyjarsveit 28. október. Vel var mætt og umræður urðu líflegar.
Ottó Elíasson, formaður fagráðs, setti fundinn og kynnti í kjölfarið verkfærakistu loftlagsmála sem Samband íslenskra sveitarfélaga setti í loftið á dögunum. Verkfærakistan er samsafn upplýsinga, leiðbeininga og reiknivélar fyrir sveitarfélög til að nýta sér við gerð loftlagsstefnu. Tvö sveitarfélög á svæðinu voru í rýni varðandi kistuna í sumar og uppleggið er nytsamlegt og upplýsingagjöf þar inni til fyrirmyndar.
Í framhaldi af kynningu á kistunni, sýndi Sveinn sveitarstjóri Skútustaðahrepps fundargestum þeirra vinnu með fyrirtækinu GreenFo. Sú vinna felst í því að lesa gögn beint úr bókhaldskerfi og greina kolefnisfótspor sveitarfélagsins á þann hátt. Þannig fæst heildarmynd á losun sveitarfélagsins með aðgengilegri leið en að safna þeim gögnum handvirkt víðsvegar frá. Sveitarfélagið er í þróunarvinnu varðandi þetta verkefni.
Eftir ljómandi hádegisveitingar frá Dalakofanum var farið að ræða tækifæri sveitarfélaga í nýtingu lands, landgræðslu og skógrækt. Gríðarleg tækifæri liggja í landsvæðinu og uppbyggingu hringrásarferla í tengslum við slík verkefni. Nú þegar er verið að nýta svartvatn, úrgang frá fyrirtækjum og fleira til að rækta upp land á svæðinu og þróunin í þessum málum er hröð.
Lagt var upp með eftir fundinn að halda áfram samtalinu, nýta þekkingu sem er að myndast á svæðinu þvert á sveitarfélög og finna frekari leiðir til að nýta tækifærin til áframhaldandi uppbyggingar. Fagráð umhverfismála mun taka skilaboð af fundinum áfram og nýta inn í umræðuna varðandi umhverfismál. Margt kom upp í umræðunni s.s. hvernig eigi að gera úrgang sexý, hvar á svæðinu umhverfisklasi á að rísa og ýmislegt fleira. Fagráð umhverfismála þakkar fundargestum kærlega komuna og þátttökuna á vinnustofunni.