Sveitarfélögum er einnig veitt heimild til að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur vegna fasteignaskatta rekstraraðila sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins eða gjaldenda sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við. Sveitarfélög er vilja nýta umrædda heimild verða að setja reglur þar sem nánari skilyrði koma fram og tryggt sé að jafnræðis sé gætt. Vakin er athygli á því að í frumvarpinu má finna nánari leiðbeiningar um æskilegt innihald þeirra reglna.
Að auki var samþykkt að lögfesta heimild ráðherra til að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og til að auðvelda töku ákvarðana þegar neyðarástand skapast í sveitarfélagi. Áður hafði verið samþykkt sambærileg heimild sem bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum en það ákvæði féll úr gildi um seinustu áramót. Ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga er enn í gildi og gildir til 31. apríl 2021.