Ný skýrsla um kolefnisspor Norðurlands eystra
Ný skýrsla um kolefnisspor Norðurlands eystra
Núna í júní kom út skýrsla um Kolefnisspor Norðurlands eystra, unnin af Environice fyrir SSNE.
Í skýrslunni er að finna sundurliðuð gögn um losun í hverju sveitarfélagi fyrir sig og í landshlutanum sem heild.
Líkt og sjá má á myndinni hér að neðan nam reiknuð nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlandi eystra 2022 samtals 1.033.654 tonnum, eða um 33,2 tonnum á hvern íbúa. Þessi tala liggur mjög nálægt landsmeðaltalinu sem var um 33 tonn á íbúa skv. landsskýrslu Íslands.
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að helstu tækifæri landshlutans séu í þremur verkefnum.
1. Endurheimt votlendis
Langstærstu tækifærin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlandi eystra liggja í endurheimt votlendis. Aðgerðir til að fyrirbyggja losun frá framræstu votlendi eru tæknilega einfaldar og tiltölulega ódýrar. Endurheimt votlendis hefur einnig þann kost að árangur skilar sér nánast frá fyrsta degi, því að oxun kolefnis stöðvast nánast um leið og svörðurinn blotnar. Endurheimtin er einnig til þess fallin að auka líffræðilega fjölbreytni á viðkomandi svæði. Fyrsta skrefið í endurheimt votlendis ætti að vera að greina þau svæði sem liggur beinast við að endurheimta, svo sem með tilliti til núverandi notkunar og eignarhalds. Einnig ætti að ávarpa endurheimt votlendis við gerð og endurskoðun aðalskipulags sveitarfélaga og setja þá verndun á óraskað votlendis.
2. Endalok urðunar
Árið 2022 nam reiknuð losun vegna urðunar úrgangs frá íbúum og fyrirtækjum á Norðurlandi eystra 15.150 tonnum koldíoxíðsígilda eða um 0,5 tonnum á hvern íbúa landshlutans. Þetta er ekki einn af stærstu losunarþáttunum, en líklega sá sem sveitarstjórnir hafa mest um að segja.
3. Loftslagsvænni samgöngur
Sveitarstjórnir og almenningur hafa ýmsar leiðir til að draga úr losun vegna vegasamgangna. Þrýstingur á og stuðningur við uppbyggingu innviða fyrir rafknúnar samgöngur eru mikilvæg í þessu sambandi og sama gildir um styrkingu almenningssamgangna. Fræðsluátak sem hefur það að markmiði að opna augu fólks fyrir kostum þess, bæði fyrir heilsu og umhverfi, að fara gangandi eða hjólandi á milli staða, getur skilað miklum árangri eitt og sér. Til lengri tíma litið skipta hinsvegar skipulagsákvarðanir sveitarfélaga mestu máli, svo sem ákvarðanir sem stuðla að styttingu ferða milli heimila, vinnustaða og hvers kyns þjónustustofnana, svo og ákvarðanir sem auðvelda og stuðla að virkum ferðamáta innan þéttbýlisstaða og á milli nálægra staða.
"Þetta eru þau verkefni þar sem sveitarstjórnir og almenningur geta náð mestum og skjótustum árangri til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlandi eystra."
Ljóst er orðið að grípa þarf til skjótra og róttækra aðgerða til að sporna gegn loftslagsbreytingum, hvort sem horft er til hagsmuna atvinnulífs á Norðurlandi eystra, íbúa svæðisins, þjóðarbúsins eða mannkynsins alls.
Skýrslan sem hér birtist er mikilvæg í því samhengi og ætti að nýtast starfsfólki sveitarfélaga og kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum á Norðurlandi eystra vel til að greina hvar helst séu tækifæri til að bæta frammistöðu svæðisins í loftslagsmálum.
Frekari upplýsingar um skýrsluna má nálgast hjá Sigurborgu Ósk Haraldsdóttir, verkefnisstjóra SSNE.
sigurborg@ssne.is