Fara í efni

Íbúakönnun 2020 - helstu niðurstöður

Íbúakönnun 2020 - helstu niðurstöður

Staða og mikilvægi búsetuskilyrða á Norðurlandi eystra: samantekt helstu niðurstaðna

Niðurstöður nýrrar könnunar landshlutasamtaka sveitarfélaga hefur nú verið birt. Könnunin var gerð meðal íbúa landsins og spurt var út í búsetuskilyrði, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku og framkvæmd í september og október síðastliðnum. Íbúasvæði Norðurlands eystra voru þrjú í könnuninni, þ.e. Akureyri, Eyjafjörður (öll sveitarfélög utan Akureyrar) og Þingeyjarsýsla. Heildarfjöldi svara á Norðurlandi eystra var 1.673 en þetta var í fyrsta skipti sem Norðausturland tekur þátt í þessari könnun sem síðast var gerð árið 2017.

Viðhorf til sveitarfélags
Í samanburði við önnur landsvæði eru Akureyringar og Eyfirðingar meðal þeirra jákvæðustu í viðhorfi til síns sveitarfélags en Þingeyjarsýsla í neðri hluta þess lista.

Búsetuskilyrði
Íbúar Akureyrar og við Eyjafjörð komu, ásamt höfuðborgarbúum, best út á landinu þegar spurt var um afþreyingu og raunar eru Akureyringar ánægðastir allra í könnuninni með almenningssamgöngur, framhaldsskóla, háskóla, íbúðir, leiguíbúðir, menningu, sorpmál, umhverfismál og vegakerfi. Þeir eru að auki meðal þeirra jákvæðustu í samanburðinum hvað varðar vöruverð og vöruúrval, unglingastarf, nettengingar, mannlíf, íþróttir, framfærslu, farsíma og atvinnuúrval. Akureyringar eru óánægðastir allra með loftgæði, borið saman við önnur landsvæði.

Ásýnd fær góða einkunn íbúa allra búsetusvæðanna þriggja á Norðurlandi eystra. Eyfirðingar eru einnig ánægðari en Akureyringar með leikskólaþjónustu. Fólk í sveitunum, bæði við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum, er ánægðara með nettengingar en íbúar þéttbýlisstaðanna. Þingeyingar og Eyfirðingar gefa skipulagsmálum einnig hærri einkunn en Akureyringar, sem og umferð en raunar gefa Þingeyingar umferðaröryggi fjórðu hæstu einkunnina þegar umsagnir um það atriði eru bornar saman yfir landið. Þingeyingar eru einnig ánægðari en Eyfirðingar með vegakerfið en í samanburði við önnur landsvæði eru þeir óánægðastir allra með unglingastarf.

Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 25 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um voru Akureyringar í 2. sæti, Eyfirðingar í 3. sæti og Þingeyingar í 13. sæti.

Könnunin fór fram í september og október 2020 en umsjón yfir skipulagi, framkvæmd og framsetningu niðurstaðna höfðu þau Vífill Karlsson, ráðgjafi SSV og dósent við HA og Helga María Pétursdóttir, ráðgjafi SSNE.

Hægt er að nálgast frekari niðurstöður könnunarinnar HÉR.

Getum við bætt síðuna?