Íbúafundur á Bakkafirði
Íbúafundur á Bakkafirði
Miðvikudaginn 2. október 2024 var haldinn árlegur íbúafundur í verkefninu Betri Bakkafirði undir hatti Brothættra byggða. Farið var yfir árangur í verkefninu og rædd tækifæri næstu missera og ára. Sveitarstjóri, Björn S. Lárusson, fór yfir mikilvægi orðspors Bakkafjarðar og hvað íbúar gætu gert til að hlúa að því. Oddviti, Sigurður Þór Guðmundsson, fór yfir framtíðarsýn Langanesbyggðar varðandi framhald verkefnisins eftir að Byggðastofnun dregur sig í hlé úr verkefninu. Hann lagði áherslu á samheldni og samtakamátt íbúa í því samhengi og að sveitarstjórn Langanesbyggðar sé staðráðin í að standa vel við bakið á samfélaginu með því m.a. að ráða starfsmann á staðinn til að fylgja árangri eftir.
Eva María Hilmarsdóttir sagði frá Grásleppunni, hátíð sem haldin var s.l. sumar í annað sinn með góðri þátttöku íbúa og gesta. Jafnframt greindi hún frá árangursríku samstarfi um nýtingu afurða úr grásleppu sem staðið hefur yfir síðastliðin tvö ár og mun halda áfram. Aðilar að samstarfinu eru meðal annars Bjargið fiskvinnsla á Bakkafirði, Biopol á Skagaströnd, Brim, Vignir G. Jónsson ehf., Háskólinn á Akureyri og Bakkasystur. Verkefnið hefur hlotið stuðning úr Lóunni og nú síðast úr Matvælasjóði.
Romi og Hildur Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá SSNE, stýrðu umræðum um framtíð Bakkafjarðar í vinnuhópum og komu þar fram margar áhugaverðar hugmyndir sem verkefnisstjóri og íbúar munu vinna áfram með.
Í lok fundarins urðu umræður um mikilvægi fiskveiða- og vinnslu fyrir samfélagið á Bakkafirði og um þá uppbyggingu sem hefur orðið hjá Fiskvinnslunni Bjargi á verkefnistíma Betri Bakkafjarðar. Fyrir liggja drög að samningum fyrirtækisins og Byggðastofnunar um nýtingu sértæks aflamarks á Bakkafirði næstu ár og má búast við að samningar verði undirritaðir von bráðar. Það er enda mjög mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingarstarfi á Bakkafirði.
Fyrir fundinn var tækifæri til að skoða styrkt frumkvæðisverkefni eins og fuglaskoðunarhúsið Stélið í Finnafirði, upplýsingarskilti um skáldið Kristján frá Djúðalæk og smalahundaþjálfun á Miðfjarðanesi.