Fara í efni

Hvað er HönnunarÞing?

Í gegnum tóna og tal dagskrárinnar kynnast gestir því hvernig spila má á strengi nýsköpunar, þjálfa …
Í gegnum tóna og tal dagskrárinnar kynnast gestir því hvernig spila má á strengi nýsköpunar, þjálfa sköpunarvöðvann og sjá hugmynd verða að veruleika.

Hvað er HönnunarÞing?

HönnunarÞing er hátíð hönnunar og nýsköpunar og verður nú haldin í annað sinn. Hátíðin fer fram á Húsavík og verður áherslan þetta árið á tónlist og margvíslegar birtingarmyndir snertiflata hönnunar, nýsköpunar og tónlistar. Prógrammið er sett saman sem skapandi málþing. Stundum er staðið, stundum er setið - en alltaf eitthvað sem eflir andann. Það verða sýningar, fyrirlestrar, tónleikar, námskeið og sitthvað fleira á dagskrá

Á dagskránni eru meðal annars innlegg frá bátahönnuði sem hannar björgunarskip, listrænum stjórnanda tölvuleiks, þá verður hugarheimur Skálmaldar ræddur þar sem myndmál, menningararfur og textasmíði tvinnast saman, ný íslensk og mætti segja norðlensk hljóðtækni verður kynnt af verðlaunuðum íslenskum frumkvöðlum, pallborðsumræður um það hvernig á að raungera klikkaðar hönnunar- og tónlistarhugmyndir og stórkostlegt tónlistarfólk með uppákomur þar sem upplifunarhönnun er lykilþáttur.

Tuula Rytilä fjárfestir og stjórnarkona í hinu þekkta alþjóðlega fyrirtæki í hönnun og hljóðbúnaði, Bang & Olufsen mun flytja meginerindi hátíðarinnar. Frá 1925 hefur B&O búið til hljóð- og heimaafþreyingarvörur samkvæmt ströngustu stöðlum um hljóð, handverk og hönnun. Hún m.a. fjalla um nálgun B&O á tímalausri tækni og hvernig hljóð og hönnun mætast í þeirra vöruþróun.

Einnig munu nemar í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vera að störfum á Stéttinni og nýta frábæra aðstöðu FabLab Húsavík alla vikuna og bjóða forvitnum að kynnast náminu.

Að hátíðinni stendur Hraðið miðstöð nýsköpunar á Húsavík með vöruhönnuðinn Stefán Pétur Sólveigarson í fararbroddi. SSNE er samstarfsaðili og fagnar framtakinu og leggur sitt að mörkum til að vekja athygli á atvinnulífi á sviði nýsköpunar og skapandi greina. Með viðburðinum er meðal annars leitast við að opna augu fólks fyrir möguleikum þess að vinna að hönnun og öðrum skapandi greinum um allt land. Er hér gott tækifæri til að minna á þær 150 milljónir í styrki til að fjölga óstaðbundnum störfum á landsbyggðinni

Í gegnum tóna og tal dagskrárinnar kynnast gestir því hvernig spila má á strengi nýsköpunar, þjálfa sköpunarvöðvann og sjá hugmynd verða að veruleika. En búið er að spinna fjölbreytta þræði skapandi huga saman í vef HönnunarÞings 2024 á Húsavík, til að veita fólki innsýn í starfsgreinarnar.

Getum við bætt síðuna?