Hraðið - nýsköpunarmiðstöð opnar í nóvember
Hraðið - nýsköpunarmiðstöð opnar í nóvember
Á Húsavík hefur orðið mikil breyting á atvinnuháttum síðustu tvo áratugi. Framleiðsluiðnaður og sjávarútvegur hefur breyst og dregist saman en ferðaþjónusta komið á móti sem ein undirstöðugreinin. Þá hefur aukist nýting orku til iðnaðar. Miklar sviptingar hafa orðið á eignarhaldi atvinnufyrirtækja og starfsemi þeirra á svæðinu. Stórir póstar hafa horfið á brott og aðrir nýir komið í staðinn eða orðið til. Á þessum tíma hefur þekkingargeirinn, með rannsóknum, þróunarvinnu og fullorðinsfræðslu, einnig þróast hratt samhliða þessum miklu samfélagsbreytingum.
Árið 2021 telur þekkingargeirinn á Húsavík um 25 starfsmenn á heilsársvísu auk margvíslegrar starfsemi í árstíðabundnum verkefnum. Stærstur hluti þessa starfar undir einu þaki í Þekkingarsetrinu á Húsavík (um 20 starfsmenn).
Ár hvert dregur Húsavík að sér fjölda erlendra og íslenskra einstaklinga með hugmyndir í farteskinu, til rannsókna- og þróunarverkefna, vinnu með fyrirtækjum á staðnum eða eigin verkefna. Er þá ótalið heimafólk og fyrirtæki, sem einnig hafa dregið fram og rekið áfram nýsköpunarhugmyndir.
Nýsköpun útheimtir aðstöðu
Þekkingarstofnanirnar á Húsavík tengjast nýsköpunarstarfi allar að einhverju marki, en á liðnum árum hefur farið sívaxandi eftirspurn í vinnuaðstöðu frumkvöðla, rannsakenda og fyrirtækja í nýsköpunarhugleiðingum. Þessu hefur verið reynt að mæta að einhverju leyti, einkum á vegum Þekkingarnets Þingeyinga, með samnýtingu takmarkaðrar aðstöðu í námsverum fyrir fjarnema og stuðningi og ráðgjöf starfsfólks.
Til að styðja við frumkvöðla, hvort sem þeir eru aðkomnir gestir erlendir eða íslenskir eða heimafólk á Húsavík, þá þarf skilgreinda grunnaðstöðu og þjónustu. Það þarf að mynda jarðveg sem er frjór og rétt saman settur til að fræin geti náð rótum og myndað ávexti. Mjög hagkvæmt er að byggja frumkvöðlasetur á þeim sterka grunni sem þekkingarsamfélagið á Húsavík hefur þegar myndað. Þar er þegar kominn öflugur kjarni stofnana sem sinnir rannsóknum, þróun, ráðgjöf og fræðslu og auðvelt að bæta við stuðningi við nýsköpun og hýsingu frumkvöðla.
Hraðið - nýsköpunarmiðstöð er eitt af þremur verkefnum sem hlutu styrk úr stefnumótandi byggðaáætlun til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða í desember 2020 þar sem SSNE vann umsóknir fyrir hönd átta verkefna og þrjú þeirra hlutu styrk fyrir alls 56 mkr.
Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er setur frumkvöðla á Húsavík. „Hraðið“ er raunar vinnuheiti sem festst hefur á verkefninu, en það vísar til þekkts orðfæris frá árum áður á Húsavík um nýtt og tæknilegt „hrað“-frystihús staðarins. Á síðustu árum hefur orðið „hraðall“ (e. acclerator“) einnig orðið þekkt í nýsköpunarstarfi yfir vettvang eða aðstöðu sem ýtir undir eða hvetur áfram nýsköpunarstarf.
Á 21. öld er 4. iðnbyltingin viðfangsefnið; með fyrirséðum breytingum á atvinnuháttum af völdum sjálfvirknivæðingar. Þessum breytingum þurfa byggðirnar um landið að vera reiðubúnar að mæta.
Opnar haustið 2021
Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er hýst og þróað af Þekkingarneti Þingeyinga. Starfsfólk og rekstur verkefnisins verður á vegum og innan veggja Þekkingarnetsins á meðan unnið er að útfærslu framtíðarhúsnæðis.
Í meginatriðum mun felst starfsemi Hraðsins í eftirfarandi þáttum:
- Vinnuaðstaða frumkvöðla 24/7; fyrir einstaklinga til lengri og skemmri tíma
- Fab-lab Húsavík; fullbúin tæknismiðja í samstarfsneti annarra slíkra
- Vinnuaðstaða til móttöku starfsmannahópa/-teyma nýsköpunarfyrirtækja
- Samnýting kennslu-/fyrirlestrarýma/rannsóknastofa þekkingarsetursins til ráðstefnuhalds og teymisvinnu.
- Myndun aðlaðandi „vinnustaðar“ í frjóu umhverfi 25-40 starfsmanna
- Ráðgjöf og miðlun milli frumkvöðla og atvinnuráðgjafa
Húsavík mætir 4. iðnbyltingunni
Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er rökrétt þróun innviða þekkingarsamfélagsins á Húsavík með hliðsjón af þeim aðstæðum sem lýst er að framan. Útfærsla og umfang miðast við sértækar aðstæður á Húsavík eins og lýst hefur verið hér, en meginþættir verkefnisins geta þó yfirfærst að nokkru leyti á önnur samfélög. Verkefnið snýst þegar upp er staðið um að mynda jarðveg í frjóu umhverfi sem ætlað er að rækta hugmyndir og grípa fólkið sem hefur þessar hugmyndir. Fyrirfram vitum við ekki hverjar hugmyndirnar eru og þaðan af síður hvaða fólk kemur til með að eiga þær. Út úr þessu getur orðið suðupottur sköpunar og hugmynda. Ef tekst að kynda undir slíkum potti er engin ástæða til að ætla annað en vel takist að mæta tækifærum og áskorunum 4. iðnbyltingarinnar á Húsavík.
úr pistli Óla Halldórssonar, forstöðumanni - Birt með leyfi