Fara í efni

Heims­mark­miðasjóður at­vinnu­lífs­ins. Um­sókn­ar­frest­ur 15. okt

Heims­mark­miðasjóður at­vinnu­lífs­ins. Um­sókn­ar­frest­ur 15. okt

Umsóknarfrestur í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífsins er til 15. október næstkomandi. Sjóðurinn styrkir verkefni íslenskra fyrirtækja til að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í þróunarlöndum.

Styrkveitingar úr sjóðnum eru takmarkaðar við atvinnulífið og umsækjendur geta einvörðungu verið opinberlega skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, til að mynda einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir.

Verkefni þurfa að vera framkvæmd í samvinnu við samstarfsaðila í tilteknu þróunarlandi. Einnig geta fleiri samstarfsaðilar, t.d. háskólar og félagasamtök, komið að verkefninu.

Helstu skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að teljast styrkhæfur:

  • vera opinberlega skráð fyrirtæki og hafa starfað í a.m.k. eitt ár,
  • geta lagt fram staðfestan ársreikning,
  • geta lagt fram staðfest gögn um að fyrirtæki sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur,
  • vera með stefnu varðandi samfélagslega ábyrgð og/eða siðareglur,
  • vera með reynslu og kunnáttu á framkvæmd sambærilegra verkefna, einkum í þróunarlöndum.

Umsækjendur þurfa að uppfylla þær kröfur um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu sem Ríkisendurskoðun gerir.

Sérstök áhersla er lögð á atvinnusköpun kvenna og að verkefnin hafi jákvæð umhverfisáhrif. Grundvallaratriði er að verkefnin styðji við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, einkum heimsmarkmið átta um atvinnuþróun og atvinnusköpun.

Fjárhæð til einstakra verkefna nemur hæst 200.000 evrum á þremur árum. Styrkfjárhæð getur numið allt að helmingi af heildarkostnaði verkefnis.

Fullt nafn sjóðsins er "Samstarfssjóður við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna" og hann er staðsettur hjá utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum. Nánari upplýsingar um sjóðinn veitir Auður Edda Jökulsdóttir hjá utanríkisráðuneytinu. Fyrirspurnum er einnig hægt að senda á netfangið atvinnulif.styrkir@utn.is
Umsókn skal send til utanríkisráðuneytisins í gegnum miðlæga þjónustugátt hins opinbera, island.is/samstarfssjodur.

Frekari upplýsingar má nálgast hér. 

 

 

Getum við bætt síðuna?