Hacking Norðurland- MATUR-VATN-ORKA
Hacking Norðurland- MATUR-VATN-ORKA
Lausnamót
Hacking Norðurland er lausnamót sem fer fram dagana 15.-18. apríl 2021 á Norðurlandi. Unnið verður með sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins með tilliti til matar, vatns og orku. Markmið lausnamótsins er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Lausnamótinu er ekki síður ætlað að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi. Hacking Norðurland er samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri. Íslandsbanki styrkir verkefnið.
Dagskrá
Lausnamótið fer að stærstum hluta til fram í gegnum Hugmyndaþorp, sem er stafræn leið til samsköpunar, þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Þátttaka er því ekki háð staðsetningu og er öllum velkomið að taka þátt. Þátttakendur fá tækifæri til að kynnast nýtingu auðlinda á Norðurlandi, tengjast nýju fólki og eflast í að vinna ný verkefni út frá áskorunum svæðisins. Lausnamótið hefst 15. apríl með opnunarviðburði og vefstofu þar sem rætt verður um þau tækifæri sem felast í auðlindum svæðisins. Föstudaginn 16. apríl hefst svo lausnamótið sjálft sem stendur í 48 klukkustundir. Samstarfsteymi Hacking Norðurland mun ferðast á milli frumkvöðlasetra á svæðinu meðan á lausnamótinu stendur og geta þátttakendur nærri þeim setrum nýtt sér möguleikann á því að vinna að hugmyndum sínum þar. Lausnamótið endar sunnudaginn 18. apríl með lokaviðburði þar sem dómnefnd velur þrjú bestu verkefnin.