Fara í efni

Gróðurhús í Öxarfirði

Mynd: Kristján Þ. Halldórsson
Mynd: Kristján Þ. Halldórsson

Gróðurhús í Öxarfirði

Auðlindir Öxarfjarðarhéraðs eru af mörgum toga og gerðum. Hæst ber að nefna auðlindir sem felast í jarðvarma, vatnsgæftum og stórbrotinni náttúru. Nýting auðlindanna hefur aukist í áranna rás en þær eru þó langt því frá að vera fullnýttar.

Sagan segir okkur að reynsla, tækni og þekking hefur gert Íslendingum kleift að beisla jarðhitaorku og eru möguleikar á nýtingu jarðhitans á svæðinu töluverðir og myndu auka atvinnu og uppbyggingu á svæðinu. Ein merkasta auðlind Öxarfjarðar er „Sandurinn“, þá sérstaklega m. t. t. mikils jarðvarma og ferskvatns, auk víðlendis. Auðlindirnar í Sandinum eru vel þekktar og nýtingamöguleikar ættu að vera fjölmargir og fjölbreytilegir og þar eru spennandi sóknarfæri fyrir brothætt byggðarlag á nýjum vettvangi.

Í desember 2020 voru veittir styrkir úr stefnumótandi byggðaáætlun til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða þar sem SSNE vann umsóknir fyrir hönd átta verkefna þar sem þrjú þeirra hlutu styrk fyrir alls 56 mkr. Verkefnið Gróðurhús í Öxarfirði var eitt af þessum verkefnum.

Markmið verkefnisins er að stuðla að frekari nýtingu (og atvinnusköpun) á auðlindum Öxarfjarðarhéraðs með því að taka ákveðið skref í átt til uppbyggingar gróðurhúsa í tengslum við ríkulegan jarðhita í Sandinum. Þá verður sjálfbærni höfð að leiðarljósi og kannað til hins ýtrasta hvort nýta megi t.d. lífrænan úrgang af svæðinu í áburð sem og aðrar nýjar/sjálfbærar aðferðir.

Að sögn atvinnu- og samfélagsfulltrúa Öxarfjarðarhéraðs, Charlottu Englund, er þetta er mjög vannýtt tækifæri, sem er fyrst og fremst það sem veldur því að farið var í þá vinnu að sækja um styrki fyrir fyrstu áfanga þessa verkefnis. Þess má einnig geta að í verkefnisáætlun Öxarfjarðar í sókn (verkefni Brothættra byggða) var rík áhersla á markmiðum tengd matvælaframleiðslu af ýmsum toga. Þá rímar verkefnið vissulega við stefnu stjórnvalda og sóknaráætlunar um nýsköpun í matvælaiðnaði, sjálfbærni í landshlutanum og stuðla að frekari nýtingu auðlinda og úrgangs sem og að skapa fjölbreyttari störf í brothættri byggð.

Gróðurhús í Öxarfirði er unnið í áföngum og eru fyrstu skref komin vel af stað, en búið er að ráða verkefnisstjóra, Lindu B. Níelsdóttur og er greiningarvinna í fullum gangi þar sem verið er að kortleggja þá staði sem koma til greina, tegundir húsa, aðferðir og tegundir.

 

Getum við bætt síðuna?