Grænir iðngarðar og græn framtíð á Bakka
Grænir iðngarðar og græn framtíð á Bakka
Íslandsstofa, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Landsvirkjun og Norðurþing hafa undanfarna mánuði unnið að samantekt og greiningu á tækifærum sem geta falist í þróun grænna iðngarða á Íslandi.
Grænir iðngarðar
Grænir iðngarðar í dag, á heimsvísu, eru alla jafna að vinna sig í átt að sínum markmiðum, hvort sem er að fullkomnu hringrásarhagkerfi, kolefnishlutleysi eða öðrum slíkum markmiðum. Grænir iðngarðar á Íslandi eru tiltölulega skammt á veg komnir, þó ýmis metnaðarfull verkefni eru í gangi. Mikil vinna er fyrir höndum en nýsamþykkt Orkustefna styður mjög við grundvöll verkefnisins um græna iðngarða og eflingu hringrásarhagkerfisins.
Grænir iðngarðar eiga sér nokkrar skilgreiningar. Alla jafna, er hægt að skilgreina græna iðngarða sem iðngarð sem styður við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulagningu, stýringu og framkvæmd. Þetta er því svæði sem styður við framþróun milli iðngarðs og samfélagsins til hagsbóta fyrir alla, með fólk, umhverfið og hagsæld að leiðarljósi. Hugtakið hefur þróast og tekur á viðfangsefnum eins og nýtni auðlinda og hreinna framleiðsla, iðnaðar samlíf, loftslagsbreytingar, mengun, félagslega staðla, samnýtta innviða, betri stýringu á áhættu og samnýtingu auðlinda, hönnunarhugsun, ásamt landnotkun og áhrif á vistkerfi.
Af hverju grænir iðngarðar?
•Minni notkun hráefna, s.s. vatns, orku, efna
•Minni úrgangur vegna aukinnar hringrásar
• Minni losun gróðurhúsalofttegunda og mengunar
• Betri stýring umhverfis --, félagslegra og fjárhagslegra áhætta
• Ný góð störf
• Aukin heilsa og öryggi starfsfólks
• Betri aðgangur að tækni
• Betri aðgangur að fjármagni
• Með stýringu garðsins næst bætt starfsemi einstaka fyrirtækja
• Aukin seigla samfélags og fyrirtækja
• Sameiginleg framsetning viðskiptahagsmuna
• Lækkaður rekstrarkostnaður og bætt ferli skilvirkni og framleiðni
Grænir iðngarðar - tækifæri fyrir Ísland
Kynningarfundurinn Grænir iðngarðar – tækifæri fyrir Ísland fór fram í Hörpu 14.september sl., en útsendingu var einnig kastað á vef Íslandsstofu og á Facebook. Erindi áttu þau Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings sem fór yfir tækifæri á Bakka og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Á fundinum var gert grein fyrir því hvernig efla megi atvinnulífið, auka samkeppnishæfni Íslands og treysta landsbyggðunum með uppbyggingu grænna iðngarða.
Á kynningarfundi kom fram í máli ráðherra að næstu skref verði m.a. að vinna að relgugerð varðandi endursölu á glatvarma í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærni og styrkingu hringrásarhagkerfa. Stefnt verður að því að heimila fyrirtækjum að selja frá sér afgangsvarma eða glatvarma og að Grænir Iðngarðar fái heimild til þess að kaupa raforku milliliðalaust og dreifa innann garðanna. Þetta sé mikilvægt skref sem hvatar fyrir atvinnulífið í grænum lausnum og stuðlar að aukinni orkunýtingu í landinu, eykur samkeppnishæfni landsins í heild og hvetur til samstarfs um uppbyggingu á iðngörðum þar sem hringrásarhagkerfið er haft að leiðarljósi.
Græn framtíð á Bakka
Landsvirkjun og sveitarfélagið Norðurþing undirrituðu samstarfsyfirlýsingu fyrr á árinu um forathugun á þróun og uppbyggingu Græns iðngarðs á Bakka við Húsavík. Samkvæmt nýútkominni skýrslu, eru tækifæri fyrir fullvinnslu og verðmætasköpun innan græns iðngarðs á Bakka raunveruleg og myndi falla vel innan stefnu og markmiða sem Ísland hefur sett sér bæði í hringrásarhagkerfinu og grænum lausnum og í samfélags og efnahagsmálum. Norðurþing boðaði fyrr í sumar opinn íbúafund á Húsavík um mögulega uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka enda skiptir vilji nærsamfélagsins miklu máli við alla slíka uppbyggingu. Þátttakendur voru almennt jákvæðir og töldu tækifærin trúverðug.
Á kynningarfundi í Hörpu ræddi sveitarstjóri Norðurþings að lykilatriði væri að setja skýr markmið um hvers konar fyrirtæki á sviði græns iðnaðar við viljum keppa um við aðrar þjóðir. Fyrir hvað standa þau fyrirtæki og eftir hvaða gildum starfa þau. ,,Mikilvægast er að umhverfi grænna iðngarða verði mótað sem hvetjandi, hvort heldur fjárhagslega eða samfélagslega til samstarfs við mismunandi fyrirtækja þannig það skipti þau raunverulegu máli að bæta nýtingu orku og-eða efna og afurðastrauma á svæðinu”. Kristján benti einnig á að góð færi væru til að þróa afar spennandi fordæmi fyrir aðrar þjóðir m.t.t uppbygginar atvinnulífs á tímum risavaxinna loftslagsvandamála og að gæta þurfi að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðum um að auka sjálfbærni í verðmætasköpun. Þess vegna væri mikilvægt að fórna ekki langtímahagsmunum fyirr skammtímalausnir við uppbyggingu iðnaðarsvæða á borð við Bakka.
Kristján sagði í lok ræðu sinnar að: ,,Heildarsýn og skýr stefna sveitarfélags sem samræmist stefnu ríkisins í orku og auðlindamálum er lykill af farsælum skrefum frammávið hvort sem það er á Húsavík eða annarsstaðar á Íslandi, við erum allavega tilbúin í þá vegferð.”
Hér má lesa skýrslu um Græna Iðngarða - tækifæri fyrir Ísland.