Fyrsta námskeiðið í LOFTUM haldið fyrir Græna leiðtoga SSNE
Fyrsta námskeiðið í LOFTUM haldið fyrir Græna leiðtoga SSNE
Þátttakendum í Grænum skrefum SSNE var boðið að sitja námskeiðið Grænir leiðtogar sl. föstudag, í húsakynnum SÍMEY á Akureyri. Námskeiðið var vel sótt og ljóst að græna leiðtoga má finna víða á Norðurlandi eystra. Námskeiðið er liður í að efla tengslin milli þeirra sem starfa að umhverfismálum innan sveitarfélaga svæðisins og auka þekkingu innan vinnustaða sveitarfélaga um umhverfis- og loftslagsmál.
Námskeiðið var haldið af dr. Snjólaugu Ólafsdóttur og er fyrsta námskeiðið í LOFTUM - umhverfis- og loftslagsverkefni sem SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga hafa unnið frá því á síðasta ári. LOFTUM er áhersluverkefni innan SSNE og hefur í tvígang verið styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Í framhaldinu verða haldin fjölbreytt staðnámskeið, kynningar og netnámskeið og byggður verður upp rafrænn skóli þar sem fólk getur sótt sér fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál þegar því hentar. Áhersla verður á stutta og hnitmiðaða framsetningu fræðsluefnis og að oft og tíðum flókin úrlausnarefni í þessum málaflokki verði kynnt á einfaldan og skiljanlegan hátt. Frekari upplýsingar um LOFTUM má finna í þessari frétt á heimasíðu SÍMEY.
LOFTUM mun gegna mikilvægu hlutverki í að efla starfssvæði SSNE þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum og starfsfólk SSNE hlakkar til áframhaldandi samstarfs við starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga og SÍMEY um verkefnið.