Fara í efni

Fréttir úr landshlutanum 2045: Fríar getnaðarvarnir og tíðarvörur

Ungmenni, starfsfólk ungmennaráða og SSNE á Ungmennaþingi 2024
Ungmenni, starfsfólk ungmennaráða og SSNE á Ungmennaþingi 2024

Fréttir úr landshlutanum 2045: Fríar getnaðarvarnir og tíðarvörur

Dagana 14. og 15. október 2024 fór fram ungmennaþing SSNE í Þingeyjarsveit. Þetta var í fjórða sinn sem slíkt þing er haldið og er fulltrúum allra sveitarfélaga á starfssvæðinu boðið til þátttöku. Yfirmarkmið ungmennaþinganna hefur verið og er að valdefla ungt fólk, styrkja tengsl þeirra við hvert annað og efla samvinnu á milli sveitarfélaga. Þema ársins var lýðræði. Það mætti því segja að ungmennaþingið í ár hafi lagt upp úr því að efla ungmennin í að beita röddum sínum, hlusta á fjölbreytt rök og vera virkir þátttakendur í eigin samfélagi.

Ungmennin tóku þátt í fjölbreyttum vinnustofum, Lýðræðislestin kom frá Alþingi og hélt vinnustofu um mikilvægi lýðræðis og ungmennin fengu að æfa sig í ferlinu við að koma frumvarpi í gegnum Alþingi, Bergið headspace fjallaði um andlega heilsu ungmenna og hvert þau gætu leitað sér aðstoðar, fulltrúar frá Samfés fjölluðu um samstarf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á landsvísu, Sigríður frá Mögnum hélt sjálfseflandi vinnustofu og fræðslu um teymisvinnu, þá tóku ungmennin jafnframt virkan þátt í fræðslu og útfærslu á raundæmi um það hvernig hægt er að nýta lýðræðislega þátttöku til að hafa áhrif á eigið samfélag. Á næstu vikum verða erindi ungmenna til sveitastjórna landshlutans kynnt.

Einn af dagskrárliðum þingsins snéri að því að fá hugmyndir ungmenna inn í vinnslu á nýrri Sóknaráætlun, útfrá þeim flokkum sem starfshópur Sóknaráætlunar hefur lagt fram. Í stuttu máli eru þetta dæmi um atriði sem ungmennin kalla eftir að verði klár á Norðurlandi eystra eftir 20 ár, ef ekki fyrr.

  • Félagsmiðstöðvar og ungmennahús rekin á öllu Norðurlandi eystra
  • Betra (og frítt) aðgengi að bæði sálfræði- og læknaþjónustu
  • Fríar tíðarvörur, fríar getnaðarvarnir
  • Félagsmiðstöðva- og ungmennahúss rútur (til að auðvelda eða veita börnum og ungmennum aðgengi þar sem langt er í næstu félagsmiðstöð/ungmennahús eða þær/þau ekki rekin).
  • Virkar almenningssamgöngur milli kjarna og strætó í sveitina.
  • (Rafknúin) lest (neðanjarðar) milli landshluta
  • Auknir afþreyingarmöguleikar: Zipline, skíðasvæði, keiluhöll, skautasvæði
  • Nýting auðlinda og afþreying, t.d. risa sundlaugargarður á Norðurlandi eystra (hugmynd sett fram til að nýta jarðhitann okkar betur)
  • Verðbólga og stýrivextir í lágmarki
  • Hugsanlega búið að útrýma riðu
  • Framhaldsskólinn aftur orðinn fjögur ár

Þessi atriði sem og fleiri fóru á starfshóp SSNE sem sér um mótun nýrrar Sóknaráætlunar. Núna eru drög að nýrri Sóknaráætlun aðgengileg í samráðsgátt. Sóknaráætlun er grundvöllur vinnu landshlutasamtakanna næstu fimm árin. Stefnan hefur áhrif á ákvörðun um val á áhersluverkefnum og úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

--> Íbúar og aðrir hagaðilar eru hvattir til að kynna sér nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra í samráðsgáttinn. Opið er fyrir umsagnir en samráði lýkur 6. desember 2024.

Ungmennaþingið var fjármagnað sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, Þingeyjarsveit bauð upp á aðstöðu til vinnustofa í Breiðumýri og hreyfingar í Íþróttamiðstöðinni á Laugum en sveitarfélögin sáu sjálf um að koma ungmennum til og frá þingstað.

Getum við bætt síðuna?