Fara í efni

Framtíðarsýn Langanesbyggðar um uppbyggingu við Finnafjörð

Framtíðarsýn Langanesbyggðar um uppbyggingu við Finnafjörð

Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti á fundi sínum 20. júní stefnumörkun um uppbyggingu við Finnafjörð þar sem fram kemur framtíðarsýn sveitarfélagsins, sem og markmið og leiðir að þeim. Í stefnunni lýsir sveitarstjórn Langanesbyggðar yfir eindregnum vilja til að vinna áfram að framgangi Finnafjarðarverkefnisins og tekur m.a. jákvætt í þær hugmyndir sem hafa verið uppi um uppbyggingu rafeldsneytisiðnaðar og landeldis í Finnafirði. 

Inn í þessi áform fléttast það óöryggi sem norðausturhorn landsins hefur búið við í orkumálum í áratugi. Til að Finnafjarðarverkefnið megi fram ganga er nauðsynlegt að vinna að lausnum í þeim efnum, bæði hvað varðar raforkutengingar og eins almennt framboð orku innan svæðisins. Í stefnumótuninni lýsir sveitarstjórn sig jákvæða gagnvart hugmyndum um þróun vindorkukosta á svæðinu, bæði til að mæta núverandi orkuþörf svæðisins og til að undirbyggja fjölbreytta verðmætasköpun í Finnafirði. Forathuganir hafa nú þegar farið fram á borð við rekstur veðurstöðva og lífríkisathuganir. Niðurstöður þessara athugana gefa tilefni til að ætla að vindorkuver geti verið álitlegur kostur í þeim lið að útvega raforku til iðnaðar í Finnafirði.

Ýmis svæði innan sveitarfélagsins gætu verið hentug til vindorkuframleiðslu en áhugi landeigenda er að sjálfsögðu forsenda þess að hægt sé að þróa slíka kosti áfram. Jákvæð afstaða íbúa er sömuleiðis mikilvæg þegar kemur að ákvarðanatöku og ljóst að mikið samráðs- og kynningarferli þarf að eiga sér stað áður en endanlegt samþykki getur legið fyrir. Þá er sömuleiðis ljóst að áhugasamir aðilar um vindorkuframleiðslu munu þurfa að ráðast í viðamiklar umhverfisrannsóknir á svæðinu.

Ekki er síður nauðsynlegt að styrkja fjölmarga innviði í sveitarfélaginu. Í maí 2016 skrifuðu stjórnvöld og fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, verkfræðistofunnar EFLU og Bremenports í Þýskalandi undir samstarfsyfirlýsingu vegna uppbyggingar stórskipahafnar í Finnafirði. Í þeirri samstarfsyfirlýsingu var kveðið á um hlutverk, skyldur og aðgerðir sem þessir aðilar voru ábyrgir fyrir. Í upphafi þessa árs gerði innviðaráðuneytið svo tveggja ára samning við Langanesbyggð vegna uppbyggingu innviðamála í Langanesbyggð og ráðinn verkefnastjóri í það verkefni. Aðkoma og áhugi stjórnvalda skiptir sköpum og mikilvægt að þau séu áfram virkur þátttakandi í öllum undirbúningi. Næsta skref sveitarstjórnar er að óska eftir að sett verði af stað formleg undirbúningsvinna með aðkomu viðeigandi fagráðuneyta og stofnana.

Stefnuna í heild sinni má nálgast hér.

Frekari upplýsingar veitir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Langanesbyggðar.

sigurdur.thor.gudmundsson(hja)langanesbyggd.is

Getum við bætt síðuna?