Fara í efni

Framlög til loftslagsmála á Íslandi aukin um milljarð á ári

Framlög til loftslagsmála á Íslandi aukin um milljarð á ári

Framlög til loftslagsmála verða aukin um 1 milljarð kr. á ári á tímabilinu 2022-2031 samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

Í gær, mánudaginn 22.mars kynnti fjármála- og efnahagsráðherra  fjármálaáætlun 2022-2026 , en liður þar er að mæta hertum markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Fjármununum verður einkum varið til aðgerða á sviði náttúrumiðaðra lausna, landbúnaðar, orkuskipta og í frekari stuðning við breyttar ferðavenjur.

Aukin framlög til loftsslagsmála 

Hertar aðgerðir á fjórum sviðum

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er grundvöllur þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa sett fram til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum hingað til. Aðgerðirnar sem settar eru fram á grundvelli aukins framlags koma til viðbótar fyrri aðgerðum, eða eru nánari útfærsla á þeim og lúta að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu. Aðgerðirnar eru settar fram í fjórum meginliðum:

  1. Náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum
    Efling þess starfs sem þegar er unnið að í landgræðslu og skógrækt, vernd og endurheimt votlendis, m.a. í samstarfi við bændur og aðra landeigendur.
  2. Loftslagsaðgerðir í landbúnaði
    Loftslagsaðgerðum í landbúnaði í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður hraðað og þær auknar í samstarfi við bændur, einkum aðgerð E1 um loftslagsvænni landbúnað í því skyni að fjölga verulega bændum sem taka þátt í loftslagstengdum verkefnum.
  3. Aukinn stuðningur við orkuskipti
    Orkuskiptum í samgöngum á landi, hafi og í lofti verður hraðað. Í samgöngum á landi verður lögð áhersla á orkuskipti á sviði ferðaþjónustu og þungaflutninga. Styðja þarf við innlenda framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis til að mæta þörfum. Áframhaldandi stuðningur verður við orkuskipti í haftengdri starfsemi með bættum innviðum og nýrri tækni.
  4. Efling umhverfisvænni almenningssamgangna og betri innviðir fyrir virka ferðamáta
    Áhersla verður lögð á að efla vistvænar almenningssamgöngur með fjölgun umhverfisvænni ferðavagna og að bæta innviði fyrir virka ferðamáta, m.a. með uppsetningu hleðslustöðva.

Aðgerðirnar verða unnar í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs og eru settar fram sem hluti af grænni endurreisn eftir kórónuveirufaraldurinn. Áherslan er á að forgangsraða verkefnum sem stuðla að mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þá verði auknum hluta framlaga til þróunarsamvinnu veitt til loftslagstengdra verkefna.

 

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Fjármálaáætlun 2022-2026

Frétt frá Stjórnarráðuneyti Íslands

 

Getum við bætt síðuna?