Fara í efni

Framhald brothættra byggða á Raufarhöfn og í Öxarfirði

Mynd tekin á Höfðanum á Raufarhöfn. 
Sigrún Hrönn Harðardóttir
Mynd tekin á Höfðanum á Raufarhöfn.
Sigrún Hrönn Harðardóttir

Framhald brothættra byggða á Raufarhöfn og í Öxarfirði

Byggðastofnun hefur valið verkefnin Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn til að taka þátt í nýju tilraunaverkefni sem má líta á sem nokkurskonar framhald af verkefninu Brothættar byggðir sem byggðalögin tóku bæði þátt í fyrir nokkrum árum.
Samningar hafa verið undirritaðir á milli Byggðastofnunar, Norðurþings og SSNE til þriggja ára um hvort verkefni fyrir sig og hafa þau fengið vinnuheitin Raufarhöfn og framtíðin II og Öxarfjörður í sókn II.
Ákveðið var að í stað tveggja verkefnastjórna yrði ein verkefnisstjórn starfandi fyrir bæði verkefnin, en þannig verður jafnframt unnið að því að efla samstöðu og samstarf á svæðinu í heild, auk þess sem það einfaldar vinnuna nokkuð.

Verkefnisstjórn hefur þegar tekið til starfa og er í undirbúning að kynna verkefnið fyrir íbúum og hvetja þau til virkar þátttöku. Verkefnisstjórn skipa:

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fulltrúi Norðurþings og formaður verkefnisstjórnar
Olga Friðriksdóttir, fulltrúi íbúa Raufarhafnar
Ólafur Gísli Agnarsson, fulltrúi íbúa Raufarhafnar
Charlotta V. Englund, fulltrúi íbúa Öxarfjarðarhéraðs
Thomas Helmig, fulltrúi íbúa Öxarfjarðarhéraðs
Hildur Halldórsdóttir, fulltrúi SSNE
Helga Harðardóttir, fulltrúi Byggðastofnunar
Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi Byggðastofnunar

Þá stendur til að senda út viðhorfskönnun til íbúa í upphafi og í lokin að þremur árum liðnum til að varpa ljósi á mögulegan árangur verkefnisins.Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir í frumkvæðissjóði byggðarlaganna tveggja fljótlega, en þar mun íbúum gefast tækifæri til að sækja um styrki fyrir hvers kyns frumkvæðisverkefni.

Verkefnisstjórar verkefnanna munu vinna þétt saman að eflingu samfélaganna og skipta með sér verkum. Á Raufarhöfn verður það Nanna Steina Höskuldsdóttir starfsmaður SSNE og Norðurþings sem mun halda utan um verkefnið, en í Öxarfjarðarhéraði verður það Einar Ingi Einarsson sem starfar sem atvinnu- og samfélagsfulltrúi hjá Norðurþingi. Hægt er að hafa samband við verkefnisstjóra með því að senda tölvupóst á eftirfarandi netföng  nanna@ssne.is og einar@nordurthing.is.

SSNE fagnar þessum mikilvægu verkefnum og hvetur íbúa til þess að byrja strax að hugsa um möguleg tækifæri og verkefni sem styðja við uppbyggingu samfélaganna í Öxarfirði og á Raufarhöfn.

Getum við bætt síðuna?