Frá hugmynd að viðurkenndri grisjunarstefnu
Frá hugmynd að viðurkenndri grisjunarstefnu
Starfssvæði SSNE er ríkt af sögum og menningararfleið ýmissa lifnaðarhátta, starfsstétta og tímabila sem varðveitt eru á söfnum, setrum og sýningum svæðisins, sem svo aftur miðla til núverandi kynslóða og gæta fyrir komandi kynslóðir.
Söfnin eru mikilvægar stofnanir í samfélaginu, bæði á sviði minjavörslu og rannsókna en ekki síður sem áfangastaðir sem bjóða ferða- og heimafólki Norðurlands eystra í heimsókn og halda uppi hefðum, sögu, list- og menningarviðburðum allan ársins hring.
Eitt af hagsmunamálum okkar á Norðurlandi eystra er að styðja við og efla innviðina okkar, til að mynda mannauðinn. Verkefnahópur á vegum Safnaklasanna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem og menningarfulltrúi SSNE hafa síðustu ár staðið fyrir röð vinnustofa fyrir starfsfólk safna, setra og sýninga á svæðinu. Viðfangsefnin hafa verið afar fjölbreytt. Til að mynda samfélagsmiðlamiðlun, fræðsla fyrir jaðarhópa, efnisgerð, skapandi samstarf við grunnskóla, meðferð ljósmynda og tæknibrellur í sýningahönnun. Nú í apríl er viðfangsefnin tengd grisjun, óskráðum munum og hlutverki safna í samfélaginu.
Þann 4. apríl s.l. var vinnustofa númer sjö í röðinni og fór hún fram á Teams. Þar miðlaði Ágústa Kristófersdóttir framkvæmdastjóri safneignar Þjóðminjasafnsins þekkingu sinni og reynslu með tendrun og hvatningu í faglegu safnastarfi. Á eftir Ágústu veitti Eva Kristín Dal safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar innsýn í ferlið þeirra frá hugmynd að viðurkenndri grisjunarstefnu með áherslu á atriði til að hafa í huga í þeirri vegferð. Miklar vangaveltur og samtal fór fram að erindum loknum. Birtum við hér nokkrar spurningar fyrir fólk að hugsa um áður, en það heimsækir næsta safn, setur eða sýningu á Norðurlandi eystra.
- Hvað á að taka inn í söfnin? Hvað á að taka úr söfnunum?
- Má stefna safna stjórnast af tískustraumum?
- Hvað á að gera við yfirfullar geymslur?
- Virkar aðferðarfræði Marie Kondo í söfnum þannig að við höldum eftir því sem við elskum?
- Eru safnstjórar valdhafar yfir sögu mannkyns og/eða ákveðinna byggða?
- Hvað með grisjun og hringrásarhagkerfið? Getur fyrrum safngripur farið aftur í notkun?
Við hvetjum áhugasama um vinnustofur klasanna að hafa samband við Hildi Halldórsdóttur verkefnastjóra á sviði menningarmála hjá SSNE, hildur@ssne.is. Verkefnið er fjármagnað sem áhersluverkefni úr Sóknaráætlun. Næsta vinnustofa fer fram 23. apríl á Húsavík og verður sú síðasta í þessari röð, en viðfangsefnin hingað til eru eftirfarandi:
- Stafræn frásagnargerð á snjallsímum fyrir mismunandi miðla og notendur
- Klipp-, hljóð- og myndvinnsla á KineMaster
- Miðlunarleiðir efnis keypt/lífrænt (t.d. FB, google, instagram)
- Söfnunarstefna
- Sýningarhönnun – hönnunarhugsun í safnastarfi
- Sýningarhönnun – notkun tækni í safnastarfi
- Fræðsla til jaðarhópa
- Hugmyndahatturinn – innblástur fyrir grunnskólakennara
- Varðveisla, skráning, miðlun og almenn meðhöndlun á ljósmyndum í safnkosti smárra sem stærri eininga
- Höfundarréttarmál og persónuverndarreglur sem varða notkun og meðhöndlun ljósmynda í safnkosti
- Ferlið frá hugmynd að viðurkenndri grisjunarstefnu með áherslu á hagnýt atriði til að hafa í huga í þeirri vegferð
- Eftir að fara fram: Grisjunarstefna og óskráðir munir
Smelltu hér til að skoða yfirlit yfir söfn, setur og sýningar á Norðurlandi eystra og vestra.