Fjarvinnslustörf á Raufarhöfn og Bakkafirði
Fjarvinnslustörf á Raufarhöfn og Bakkafirði
Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir laus til umsóknar tvö tímabundin störf til allt að 18 mánaða við skráningu sóknarmannatala. Störfin felast í vinnu við innslátt sóknarmannatala í rafrænan gagnagrunn. Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt ríflega 1500 sóknarmannatöl frá um miðri 18. öld til miðrar 20. aldar og hefur verið unnið að innslætti þeirra í leitarbæran gagnagrunn á undanförnum árum.
SSNE fagnar því mjög að Þjóðskjalasafn Íslands hafi í samvinnu við Norðurþing, Langanesbyggð og verkefnið Brothættar byggðir auglýst fjarvinnslustörf á Raufarhöfn og Bakkafirði, enda geti samfélagsleg áhrif af einu starfi verið mikil í smærri byggðakjörnum. Störfin byggja á styrksamningi Þjóðskjalasafns Íslands við Byggðastofnun f.h. innviðaráðherra, með vísan í aðgerð B.8 Fjarvinnslustöðvar í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Sú stefna sem fram kemur í áætluninni um uppbyggingu fjarvinnslustöðva á landsbyggðinni og störf án staðsetningar er mikilvægur liður í því að fjölga atvinnutækifærum í hinum dreifðari byggðum.
Umsóknarfrestur er til og með 4. júlí næstkomandi. Sjá nánar hér.
Einnig er hægt að hafa samband við Nönnu Steinu og Gunnar Má, starfsmenn SSNE, fyrir frekari upplýsingar.
Raufarhöfn er einn nyrsti byggðakjarni landsins, staðsettur austan til á Melrakkasléttu. Á Raufarhöfn búa um 200 manns í fjölskylduvænu umhverfi, samrekinn er heildstæður leik- og grunnskóli. Öll helsta þjónusta er til staðar á Raufarhöfn og samgöngur eru góðar til allra átta. Heimskautsbaugur er rétt við ströndina og útivistarmöguleika óþrjótandi allt árið um kring.
Bakkafjörður er lítið sjávarpláss þar sem íbúafjöldi er uþb 60. Bakkafjörður býður upp á ótalmarga útivistarmöguleika, gönguferðir, fuglaskoðun, fjöruferðir og fleira. Engin skóli er í þorpinu en börnum ekið í skólabíl til Þórshafnar daglega. Góðar samgöngur eru til og frá Bakkafirði með bíl og reglulegt flug er bæði til Vopnafjarðar og Þórshafnar.