Fjárfestingarátak um uppbyggingu varanlegra salerna á áningarstöðum við hringveginn
Fjárfestingarátak um uppbyggingu varanlegra salerna á áningarstöðum við hringveginn
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur að fjárfestingarátaki um uppbyggingu varanlegra salerna á áningarstöðum við hringveginn. Verkefnið er boðið út í samstarfi við Ríkiskaup.
Markmið fjárfestingarátaksins er að byggja upp varanleg salerni á áningarstöðum við hringveginn. Leitast verður við að dreifing salernanna um einstaka landshluta verði sem jöfnust og hugað verði að aðgengi fyrir alla. Verkefni þar sem um er að ræða 40-50 km fjarlægð frá næsta þéttbýli njóta forgangs, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum og Norðausturlandi.
Fjárfestingarátakið er tímabundið og nemur 100 milljónum króna og verður þeim úthlutað í samræmi við fjölda umsókna og upphæð hverrar umsóknar. Einstaklingar og lögaðilar geta gert tilboð í verkefnið. Framkvæmd má hvorki kalla á veituframkvæmdir né breytingu á aðalskipulagi og skal umsækjandi sjálfur sjá um og tryggja rekstur salernanna.
Árin 2018 til 2020 varði ráðuneytið allt að 90 milljónum árlega í framkvæmd og fjármögnun tilraunaverkefnis um uppsetningu og rekstur tímabundinnar salernisaðstöðu á völdum áningarstöðum Vegagerðarinnar. Í fjárlög 2021 kom svo inn fjárheimild upp á 100 milljónir til uppbyggingar varanlegra salerna við hringveginn.
Nánar á úboðsvef Ríkiskaupa.