Félagsmiðstöð í skýjunum
Félagsmiðstöð í skýjunum
Nú er hafin vinna við þróun félagsmiðstöðvar í skýjunum, Ásgarður ráðgjafarþjónusta í samvinnu og samstarfi við Skóla í skýjunum leiða verkefnið sem styrkt er af Vestfjarðarstofu og SSNE.
Nemendur úr Skóla í skýjunum stofnuðu félagsmiðstöð sem nemendaverkefni og fengu félagsmiðstöðina viðurkennda sem aðili að SAMFÉS. Til þess að fylgja því verkefni áfram var ákveðið að sækjast eftir styrkjum til þess að gera félagsmiðstöðina í skýjunum að raunhæfum valkosti fyrir öll ungmenni á Íslandi!
Vestfjarðarstofa styrkti verkefnið um 900.000 kr. og SSNE bætti síðar um betur með veglegum 4.mkr styrk til verkefnisins í gegnum Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
Markmiðið er að ungmenni á öllu landinu, óháð hvers kyns fjarlægð, fjölbreytni og hvers kyns áskorunum nái að kynnast og byggja upp félagsleg tengsl og hæfni, án tillits til staðsetningar. Þetta gerum við með eflingu starfsemi um félagsmiðstöðvarinnar Í skýjunum.
Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar í skýjunum er ætla að efla félagsfærni rétt eins og í hefðbundnu frístundastarfi. Eini munurinn er að íverustaðurinn verður á netinu en verkefnin verða sú sömu, þ.e. þátttakendur móta starfið og ákveða viðfangsefnin en frístundafulltrúinn sér um að umhverfið sé öruggt, skipulagt, fræðandi og faglegt. Í tilraunaverkefninu hingað til hefur verið lagt upp með að hafa fasta klúbbastarfsemi á þriðjudögum en á mánudögum verði svokallaðir Rökstólar, þar sem börnin og frístundarleiðbeinandin vinna saman að því að búa til dagskrá fyrir starfið á miðvikudögum.
Fyrst og fremst verður lögð áhersla að rjúfa félagslega einangrun með starfsemi á netinu en mögulega mun starfsemi félagsmiðstöðvarinnar þróast í staðbundna viðburði líka í samvinnu og samstarfi við félagsmiðstöðvar sem starfa staðbundið. Í starfinu er lagt út frá áherslum Barnasáttmálans og því mikilvægt að fanga óskir barnanna um hvernig þau vilja skipuleggja starfið sitt.
Grunnhópurinn sem tekur þátt í verkefninu eru þeir skólar sem hafa komið að samstarfi um Valgreinaskólann og skólar og nemendur á Vestfjörðum. Nemendum hvaðan sem er á landinu er velkomið að vera með.
Gréta Kristjánsdóttir er verkefnastjóri og tekur við umsóknum um þátttöku í verkefni. Öll geta sótt um, einstaklingar, skólar, einstök sveitarfélög og félagsmiðstöðvar. Frístundaleiðbeinendur munu leiða starfið.
Áhugasamir geta sótt um hér. Hægt er að hafa samband við Grétu Kristjánsdóttur skrifstofustjóra Ásgarðs í gegnum netfangið greta@AIS.IS