Fara í efni

Félagsleg þolmörk ferðaþjónustu - niðurstöður íbúakönnunar

Félagsleg þolmörk ferðaþjónustu - niðurstöður íbúakönnunar

Í nýlegri íbúakönnun var leitað vísbendingar fyrir því hvort þolmörkum sé náð í ferðaþjónustu meðal íbúa vítt og breitt um landið. Í þeim tilgangi var spurt:

Hvað finnst þér um fjölda ferðamanna í þinni heimabyggð?
Finnst þér að fjöldi ferðamanna í þinni heimabyggð sé
of lítill, of mikill eða hæfilega mikill?

Landið allt

Niðurstöður benda til að þolgæði landans í garð ferðamanna sé í jafnvægi ef horft er til allra svara könnunarinnar (Öll svæði, Mynd 2). Hins vegar voru svörin ólík eftir landshlutum og skera tveir landshlutar sig úr (af 24) með að farið er að reyna á þolmörk í ferðaþjónustu en helmingur þátttakenda töldu ferðamenn vera of marga (Mynd 1). Það eru landshlutarnir Skaftafellssýslur og Rangárvallasýsla, eða austasti hluti Suðurlands. Næst þar á eftir komu Snæfellsnes, norðanverðir Vestfirðir og Akureyri en þeir þrír landshlutar/staðir eiga það sammerkt að vera vinsælar hafnir fyrir farþegaskip.

Hins vegar voru það íbúar á landsvæðunum Akranes og Hvalfjörður, A-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu sem voru síst á því að of mikið væri af ferðamönnum í þeirra heimabyggð.

Á þessu sést að skynsamlegt gæti verið að beita einhverskonar stýringu eða betri dreifingu ferðamanna um landið svo íbúarnir fái notið sín. Að öðrum kosti gætu heilsársbúar farið að hugsa sér til hreyfings.

Þegar þrír hópar íbúa voru dregnir sérstaklega út úr meðaltali hvers landshluta (konur, yngra fólk og íbúar í sveitum landsins) voru frávik ekki mikil.

Norðurland eystra

Á Norðurlandi eystra reynir mest á þolmörk í ferðaþjónustu á Akureyri og í Þingeyjarsýslu, þar sem hlutfall þeirra sem telja ferðamenn of marga er yfir meðaltali fyrir allt landið, en í Eyjafirði utan Akureyrar er hlutfallið hins vegar undir meðaltalinu.

Í Eyjafirði utan Akureyrar töldu um 9% íbúa fjölda ferðamanna vera of mikinn, þar af aðeins 1% allt of mikinn. 28% íbúa töldu fjöldann hins vegar vera of lítinn, þar af tæp 4 % allt of lítinn. Eftir stendur þá að um 63% íbúa þar telur fjölda ferðamanna hæfilegan.

Á Akureyri töldu um 38% íbúa fjölda ferðamanna vera of mikinn, þar af um 9% allt of mikinn. Um 9% íbúa töldu fjölda ferðamanna hins vegar of lítinn, þar af 1% allt of lítinn. Um 53% íbúa á Akureyri telja fjölda ferðamanna vera hæfilegan

Í Þingeyjarsýslu töldu um 34% íbúa fjölda ferðamanna vera of mikinn, þar af um 8% allt of mikinn. Um 13% íbúa töldu fjölda ferðamanna of lítinn, þar af 4% allt of lítinn. Um 53% íbúa í Þingeyjarsýslu telja fjölda ferðamanna hæfilegan. Eins og vænta má er viðhorf íbúa í Þingeyjarsýslu nokkuð misjafnt eftir svæðum. Í Þingeyjarsveit og á Húsavík til samans, telja um 40% íbúa fjölda ferðamanna vera of mikinn en um 6% of lítinn. Annars staðar í Þingeyjarsýslu telja aðeins um 11% íbúa ferðamenn of marga, en um 35% íbúa telja þá of fáa.

Eins og áður kom fram, virðist reyna meira á þolmörk íbúa fyrir ferðamönnum á svæðum nálægt vinsælum höfnum fyrir skemmtiferðaskip og skynsamlegt að beita einhvers konar stýringu. Á nýliðnu ársþingi SSNE bar þetta mál á góma í kjölfar erindis framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands. Þar var bent á að Þingeyjarsveit tekur á móti miklum fjölda farþega úr skemmtiferðaskipum en hefur hins vegar ekki komið að samtalinu um móttöku skipanna.

Um framkvæmd könnunarinnar

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Byggðastofnun. Könnunin hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Úrvinnsla er hafin og endanleg útgáfa heildarniðurstaðna könnunarinnar verður í júní en efnið verður birt í áföngum á þeim verkhlutum sem klárast hverju sinni. Þátttakendur voru um 11.500 að þessu sinni. Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki. Þá var einstaklingum úr ákveðnum hópum boðið sérstaklega þegar útlit var fyrir að of fáir væru þaðan. Innflytjendur eru dæmi um það en 900 tóku þátt. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Íbúakönnun þessi var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu. Nánari upplýsingar er að fá hjá Vífli Karlssyni, í vifill@ssv.is og 6959907.

Getum við bætt síðuna?