Verkefnið um líforkuver á Dysnesi flytur að heiman
Verkefnið um líforkuver á Dysnesi flytur að heiman
Verkefni um uppbyggingu líforkuvers í Eyjafirði hefur verið rekið undir stjórn SSNE um nokkuð skeið, með stuðningi Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins og í samstarfi við Vistorku, Eim, auk þess sem utanaðkomandi ráðgjafar, hérlendis sem erlendis hafa komið að.
Verkefnið hefur nú öðlast sjálfstætt líf utan veggja SSNE, þar sem félagið Líforkuver ehf. hefur verið stofnað með það að markmiði að vinna að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi. Í stjórn félagsins sitja fulltrúar Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, SSNE og sláturleyfishafa.
Undanfarið ár hefur verkefnið verið leitt af Kristínu Helgu Schiöth, verkefnastjóra í umhverfismálum hjá SSNE. Hún hefur verið ráðin af stjórn Líforkuvers ehf. til að stýra verkefninu áfram. Við hjá SSNE þökkum Kristínu Helgu fyrir samstarfið fram að þessu, óskum henni velgengni í verkefninu framundan og hlökkum til samstarfsins á nýjum vettvangi.
Uppbygging líforkuvers á Dysnesi er mikilvægur þáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis á svæðinu sem og grænni innviða- og atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi eystra. Við hlökkum til að fylgjast með verkefninu sem hefur verið fóstrað hjá okkur vaxa áfram undir nýrri stjórn.