Eimur sækir 15 milljónir í Loftslagssjóð til lífgasvinnslu í Líforkugörðum
Eimur sækir 15 milljónir í Loftslagssjóð til lífgasvinnslu í Líforkugörðum
Úthlutað hefur verið úr Loftslagssjóði og hlaut Eimur hámarksstyrk fyrir verkefnið Lífgasver í Líforkugörðum við Eyjafjörð, en verkefnið er samstarfsverkefni Eims, SSNE og Bláma. Markmið verkefnisins er að undirbúa byggingu lífgasvers þar sem framleitt yrði metangas, að drjúgum hluta úr mykju af nálægum kúa- og svínabúum. Lífmassi er afar vannýtt auðlind á Íslandi og lífgas getur leikið mun stærra hlutverk í orkuskiptum.
Meginferlið í lífgasvinnslunni er loftfirrð gerjun lífmassa, en við það ferli verður til metangas sem nýta má sem eldsneyti á farartæki. Til viðbótar við metangasið verður til koltvísýringur í ferlinu sem hreinsa má og nýta til matvælaframleiðslu, en slík starfsemi er vaxandi þáttur í starfsemi lífgasvera víða í Evrópu.
Loftslagsávinningur verkefnisins er talsverður. Annars vegar sparast bruni jarðefnaeldsneytis við framboð á metangasi úr innlendri framleiðslu, og hins vegar verður samdráttur í losun vegna bættrar meðferðar mykjunnar. Þá er ótalið kolefnisspor sem sparast við flutninga á aðföngum; eldsneyti, kolsýru og tilbúnum áburði til landsins.
Samfélagslegur ávinningur verkefnisins er einnig talsverður, en með byggingu versins yrði afhendingaröryggi á metangasi á Norðurlandi tryggt til frambúðar. Metangas yrði þannig raunhæfur kostur til orkuskipta, bæði fyrir heimafólk og fyrirtæki á Norðurlandi eystra en einnig fyrir bændur og flutningafyrirtæki sem standa í flutningum á milli landshluta.
Samhliða úthlutun Loftslagssjóðs hefur Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið veitt 10 milljónum í verkefnið Orkubændur, sem SSNE heldur utan um. Verkefnið snýr að mögulegri aðkomu bænda að lífgasframleiðslu á svæðinu; hvort og hvernig þeir geti nýtt metangas á eigin vélar og hvernig megi stuðla að sem bestu samstarfi um verkefnið.