Drift: Ný starfseining atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins opnar á Akureyri
Drift: Ný starfseining atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins opnar á Akureyri
15.september opnaði ný starfseining atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins formlega á Akureyri og hefur hún fengið nafnið Drift. Þrjú starfa hjá Drift, en þau eru öll nú þegar starfandi hjá ráðuneytinu en störfuðu áður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Akureyri.
Drift mun í upphafi sinna tveimur viðfangsefnum:
- Rekstri og umsýslu stærstu sjóða ráðuneytisins, það er Matvælasjóður, Fiskeldissjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis og Lóa nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina.
- Umsjón með tilteknum nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni.
Tilgangur skipulagsbreytinganna er einkum að ná fram hagræðingu í umsýslu sjóða ráðuneytisins, auka skilvirkni og samræma verklag. Til framtíðar kemur til greina að fjölga sjóðum til umsýslu á Akureyri.
Þá gefur Drift ráðuneytinu einnig aukið tækifæri á því að þróa verkefni sín utan höfuðborgarsvæðisinsog eykur möguleika á því að bjóða upp á fleiri störf án staðsetningar. Drift er ráðuneytisstofnun í skilningi laga um Stjórnarráð Íslands.
Nýsköpunarlandið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Samhliða þessu hafa verið gerðar aðrar breytingar á skipuriti ráðuneytisins til að styrkja og efla utanumhald um verkefni tengd nýsköpun, þvert á skrifstofur ráðuneytisins. Þar með tekur teymið, Nýsköpunarlandið, til starfa en það mun einnig vinna að málefnum nýsköpunar í samstarfi við önnur ráðuneyti og stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök.