Byggðabragur - verkfærakista unga fólksins
Byggðabragur - verkfærakista unga fólksins
Fulltrúar ungmennaráða þriggja sveitarfélaga , Langanesbyggðar, Norðurþings og Þingeyjasveitar, tóku þátt fyrir stuttu í vinnustofu ungmenna á Stéttinni Húsavík. Viðfangsefni vinnustofunnar voru tvenn, annars vegar að taka fyrir handbók Rannsóknarseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum sem heitir Byggðabragur: verkfærakista fyrir sveitarfélög, er varðar jákvæðan byggðabrag. Verkfærakistan er samin af fullorðnum fyrir fullorðna, en þennan dag var farið yfir hvaða sýn ungmennin hefðu á þessar ráðleggingar. Seinna viðfangsefnið var slúður og samfélagsmiðlaumræða, og hvernig má vinna með það í okkar samfélögum. Stefnt er að því afurð dagsins verði verkfærakista unga fólksins um jákvæðan byggðabrag. Það verður lagt í hendur unga fólksins, í hvaða birtingarformi þeirra verkfærakista verður.
Það verður spennandi að sjá afurðina og hvernig hún mun nýtast sveitarfélögum í framhaldinu til að efla búfestu og vellíðan ungmenna.
Eitt helsta tækifæri til að efla og styrkja byggðaþróun til langframa er að tryggja vellíðan íbúanna
Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar árið 2025. Verkefnisstjóri verkefnis er Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarsetri í Byggða og sveitarstjórnarmálum (RBS) við Háskólann á Bifröst. Í ágúst 2024 gaf RBS út tvær skýrslur uppúr rannsóknarverkefni um byggðabrag, þar sem borin eru saman þrjú sveitarfélög. Margt gagnlegt má finna í þessari skýrslu, en samhliða var gefin út styttri skýrsla eða handbók: Byggðabragur: Verkfærakista fyrir sveitarfélög. Þar kemur meðal annars fram, líkt og flestar rannsóknir í byggðafræði sýna, að jákvæðar minningar barna eru líklegar til að skapa framtíðar íbúa. Það er í raun margsannað að ánægð ungmenni eru líklegri til að verða snúbúar (e. return migrants). Í skýrslunni kemur einnig fram að marktækur munur er á þeim sveitarfélögum sem til skoðunar voru, hvað varðar slúður og neikvæðni, samheldni samfélags, menningarlíf og fleira. Í því samfélagi sem mældist með marktækt minna slúður, var líka meiri ánægja með menningarlíf, minni hrepparígur, meiri ánægja kvenna með búsetur o.fl. þættir sem áhugavert er að hafa í huga. Þar má sjá hversu margvíslegir þættir vinna saman að betra samfélagi og skapa þann byggðabrag sem ákjósanlegur er til að viðhalda byggðum landsins.